144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins vegna þess að hér hefur verið rætt svolítið um sóknaráætlanir og 15 milljónirnar. Mér kom mjög á óvart það sem ráðherra sagði áðan, að það hafi átt að standa 100 milljónir í fjárlagafrumvarpinu en standi óvart 15. Þetta er ekki í fyrsta sinn í gær og í dag sem við heyrum um ýmislegt sem er öðruvísi í framlögðu frumvarpi en ráðherrar höfðu ætlað sér, en það bíður seinni tíma að vinna í. Vegna þess að sóknaráætlun hefur verið til umræðu finnst mér mjög merkilegt það sem stóð í skrifaðri stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, þar sem sagt er að talað orð gildi, en í töluðu orði sleppti hæstv. forsætisráðherra því sem stóð í henni um sóknaráætlun. Með leyfi forseta, stóð í skrifuðum texta:

„Einnig er unnið að því að endurnýja sóknaráætlanir landshluta til lengri tíma svo að sá stuðningur verði festur í sessi.“

Nú hef ég það á tilfinningunni að þessi eina setning hafi ekki verið felld út vegna tímaskorts í ræðunni, en einhverra hluta vegna féll hún brott. Það kemur upp í huga minn að núverandi hæstv. ríkisstjórn sé meinbægin því að það er eins og það megi helst ekki nefna þá sóknaráætlun sem síðasta ríkisstjórn bjó til og var mjög metnaðarfull. Framlagið er auðvitað eftir því.

Ég vil eiga orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um álagningu veiðigjalda. Þá vitna ég til viðbótarsvars sem ég hef nýlega fengið frá honum, sem ég þakka fyrir, um skiptingu á veiðigjöldum eftir kaupstöðum eða útgerðarstöðum. Í því er bæði talað um hvert almennt og sérstakt veiðigjald er sem lagt er á. Það sem vekur athygli mína, og ég þykist vita að hæstv. ráðherra muni það sem fyrrverandi nefndarmaður í atvinnuveganefnd þegar við unnum þetta mál, er lækkunin á sérstöku veiðigjaldi. Þetta var tekið upp í nefndinni og við reiknuðum með að búa til þennan afslátt vegna kvótakaupa liðinna ára þegar sett var inn nýtt veiðigjald og okkur þótti það sanngjarnt, sem það var. Allir útreikningar okkar og þau gögn sem við fengum voru um það að þetta mundi fyrst og fremst koma útgerðum á Vestfjörðum til góða vegna þess að þær hefðu verið að kaupa mikið af krókaaflamarksbátum og -heimildum og þar væru miklar skuldir og mundi koma inn.

Það sem vekur athygli mína í þessu svari er að lækkunin er töluvert hærri en við reiknuðum með eða 2,8 milljarðar. Vestfirðir eru eingöngu með 430 milljónir í afslátt vegna þessa. En einn kaupstaður sker sig úr, það er Grindavík sem fær tæpar 700 milljónir í afslátt.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er sú hvort ekki sé fylgst vel með, vegna þess að útgerðir sækja um þetta til Fiskistofu, hvort ekki sé örugglega vel farið yfir það hvernig umsóknin er og ekki verið að blanda inn einhverjum öðrum fjármagnskostnaði en vegna kaupa á aflaheimildum á Íslandsmiðum, sem við hnykktum á á síðasta þingi og bættum orðinu „eingöngu“ við sem menn töldu þurfa. Spurning mín til ráðherrans er: Hvernig er fylgst með framkvæmdinni á þessum lækkunum þegar útgerðir sækja um? Hvernig er það metið? (Forseti hringir.) Hvernig er farið yfir gögnin?