144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svarið og sérstaklega hvað varðar sóknaráætlunina, að þar verði gefið í og að þessi tala, 15 milljónir, sé mistök og hún verði hækkuð.

Aftur að veiðigjöldunum og því sem snýr að framkvæmdinni. Nú eru settar ákveðnar reglur um hana. Lögin voru ákaflega skýr, að það væri eingöngu það sem væri vegna kaupa á aflaheimildum á þessum umræddu árum sem ætti að koma til afsláttar. Hæstv. ráðherra segir að skattframtöl fyrirtækja séu grunnurinn. Jú, vafalaust er það rétt og allt það en ég minni aftur á það að fyrirtæki þarf að sækja um þetta til Fiskistofu sem svo úthlutar, en skattframtöl eru væntanlega þannig að þar er allur fjármagnskostnaður talinn fram.

Spurning mín var einfaldlega út frá því, ég er ekki að alhæfa að þetta sé svoleiðis, alls ekki, en innan greinarinnar er töluverð umræða um þessa afslætti og hvernig þeir eru reiknaðir út. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að fá upplýsingar hjá Fiskistofu um að ekki sé verið að blanda þarna inn í óskyldum vaxtakostnaði vegna annarra þátta sem er svo talinn fram og fer í gegnum allt kerfið og veitir þennan afslátt.

Ég ítreka það sem ég segi. Ég er ekki að fullyrða eitt né neitt um þetta. Afslátturinn er hærri heldur en við reiknuðum með og ráðuneytið lagði fyrir okkur hvað þetta gæti verið svo að munar allt að milljarði, 900 milljónum örugglega. Þess vegna kemur mér þetta á óvart, ég er að tala um árið 2012/2013. Þegar við sjáum skiptinguna vekur hún upp spurningar hjá mönnum í greininni.

Hér í þessu góða svari er þetta loksins komið fram eftir útgerðarstöðum, á vef Fiskistofu getum við svo farið inn og séð þetta frá útgerð til útgerðar sem ég tel vera mjög gott.

Ég tel þetta svar mjög gott, t.d. að því leyti að það leiðir fram að hæstu veiðigjöldin eru greidd á útgerðarstaðnum Reykjavík. Við erum ekki (Forseti hringir.) alltaf að tala um að þetta sé eingöngu landsbyggðarskattur.

Ég vil ítreka þetta við hæstv. ráðherra: Hvernig er þetta framkvæmt og hvernig stendur á því að afslátturinn er meiri en reiknað var með?