144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra út í framlög til skógræktar.

Á síðustu árum hefur verið dregið úr fjárframlögum, allt frá árinu 2006, til landshlutaverkefna. Í fjárlögum 2015 er raunlækkun á framlögum. Á sama tíma er gert ráð fyrir því, í frumvarpi til fjárlaga, að 20 milljónir fari til eflingar landgræðslu og skógræktar og að þeim fjármunum verði varið til skipulagðrar skógræktar og landgræðsluframkvæmda á völdum svæðum á landinu á grundvelli sérstakrar aðgerðaáætlunar sem unnin verður undir stjórn ráðuneytisins í samstarfi við fagstofnanir.

Ég vil fá betur fram hjá hæstv. ráðherra hvað þarna er á ferðinni, hvort það sé ekki eðlilegra að þessum fjármunum sé beint í gegnum þau verkefni og þær stofnanir sem hafa með þennan málaflokk að gera í stað þess að vera að búa til enn eitt verkefnið, hvort mikil hagræðing sé í því og út af hverju menn velja frekar þessa leið.

Nú lagði ríkisstjórnin upp með það að efla landgræðslu og skógrækt í landinu. Ég spyr hvort ekki sé skynsamlegra að spýta í lófana og styrkja áfram þá fagþekkingu sem er til staðar innan þessara landshlutasamtaka sem við þekkjum. Hver er tilgangurinn með þessu framhjáhlaupi í þessum efnum?