144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú gæti maður tekið upp á því að vera strákslegur, þegar komið er fram á föstudaginn, og segja: Það þýðir ekki að benda á mig þegar talað er um niðurskurð til landshlutaverkefna og skógræktar. Staðreyndin er auðvitað sú, og margir hafa skilning á því, að menn hafa þurft að skera verulega niður í efnahagshruninu. Þá var skorið það mikið niður að garðplöntuframleiðendur, sem rækta litlu trjáplönturnar, urðu sumir hverjir að hverfa frá því, aðrir fóru á hausinn. Menn innan skógræktargeirans telja að eftir 20 til 40 ár munum við fá mjög flottan vöxt og síðan muni koma dálítil dæld í greinina, og þar af leiðandi tekjur af henni, í framtíðinni vegna þess að skorið hafi verið of mikið niður.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi tími hafi ekki verið það langur að þetta geti ekki bætt sig, þess vegna höfum við snúið blaðinu við. Við erum ekki að skera niður, við erum að fjölga plöntum til útplöntunar, meðal annars til að undirbyggja garðplöntugreinina og eins koma með samning við Skógræktarfélag Íslands til næstu fimm ára þar sem við erum að auka verulega í, þar nýtum við fjármagn ríkisins á mjög skynsamlegan hátt.

Þetta nýja verkefni sem við erum að hefja með 20 milljóna framlagi til skógræktar og landgræðslu er vegna þess að í loftslagssamningum, og þeim skuldbindingum sem við erum að taka á okkur þar, erum við meðal annars, og er vísað til stjórnarsáttmálans, að kolefnisbinda í miklu meira mæli en við höfum gert áður til þess meðal annars að standa við þær skuldbindingar sem við stöndum frammi fyrir 2020 og svo 2030, þ.e. í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Þar erum við því að hefja mjög spennandi verkefni sem ég vona að vaxi mjög hratt á næstu árum.

Að sjálfsögðu nýtum við alla þá þekkingu sem við höfum í landgræðslunni, í skógræktargeiranum, Skógrækt ríkisins, Landgræðslu Íslands og í landshlutaverkefnunum, en þetta verkefni er sérverkefni sem byggist á því að (Forseti hringir.) við erum að fara í kolefnisbindingu, meðal annars til að koma til móts við (Forseti hringir.) skuldbindingar okkar í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.