144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja það að mér þykir þetta nú ansi einkennilegt, að ekki sé hægt að nýta landshlutasamtökin til þessara verkefna. Þetta er auðvitað ágæt sýn og góð meining á bak við en af hverju í ósköpunum er ekki hægt að nýta þá fagþekkingu sem fyrir er hjá landshlutasamtökunum á sama hátt frekar en að fara með þetta í allt annan farveg? Það getur ekki verið mikil hagræðing af því og sparnaður og þetta gæti þýtt fækkun starfa hjá þessum landssamtökum sem vissulega hafa þurft að þreyja þorrann meðan samdráttur hefur verið. Þetta er eins og köld vatnsgusa framan í það fólk sem hefur gert það þennan tíma, þennan erfiða tíma eftir hrun, að horfa upp á það að menn ætli að finna nýjar leiðir til að vinna að skógrækt og landgræðslu eins og kom fram í máli ráðherra.

Mig langar aðeins að spyrja út í annað. Náttúrustofa Vestfjarða fékk verkefni í gróðurkortagerð árið 2008. Það var hluti af því að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Verkefnið hefur verið unnið í samvinnu við Náttúrufræðistofu Íslands. Í verkefninu fólst einkum að koma gögnum um miðhálendi landsins á stafrænt form og lauk því vorið 2014. Gróðurkortagerð er nauðsynlegt tæki eins og við þekkjum til að skipuleggja landnýtingu, náttúruvernd og vöktun vegna loftslagsbreytinga. Hjá Náttúrustofu Vestfjarða er verið að ljúka við gróðurkortagerð fyrir Vestfirði. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það mál. Mig langar að inna hann eftir því hvort hann muni styðja þetta verkefni áfram svo að samfella verði og þeir starfskraftar sem fyrir eru á Vestfjörðum nýtist til að halda áfram að vinna að þessu verkefni í (Forseti hringir.) kortlagningu og gróðurkortagerð á Vestfjörðum.