144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Verkefnið um græna hagkerfið var á margan hátt mjög gott verkefni; mörg verkefni mjög áhugaverð og eru satt best að segja í fullri vinnslu, meðal annars verkefni um vistvæn innkaup, þau heyra undir umhverfisráðuneytið og eru í fullum gangi. Ég nefni einnig fjölmörg verkefni sem tengjast því að auka lífræna ræktun sem sett var fjármagn í í gegnum græna hagkerfið í fyrra. Það sem á vantar á Íslandi, sérstaklega við uppbyggingu á lífrænum búskap, er lífrænn áburður. Við erum með slík verkefni í gangi.

Það að færa liðinn undir yfirstjórn forsætisráðuneytisins er fullkomlega eðlilegt. Þau verkefni heyra nefnilega undir ansi mörg ráðuneyti. Þeir fjármunir sem við höfum nýtt meðal annars úr græna hagkerfinu í umhverfisráðuneytinu og reyndar líka í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hafa nýst til þess að fullnusta sumar af þeim tillögum sem komu fram í skýrslu um græna hagkerfið. Ég tel því að þetta sé allt saman á nokkuð góðri leið.