144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er að verða æ algengara í þingsölum Alþingis að menn skopist að vaxtarlagi manna. Ég tek það vissulega ekki nærri mér, en ég velti fyrir mér hvert menn séu að fara. Hv. þingmaður hefur að einhverju leyti og sérlega sumir af kollegum hans gert talsvert úr því að sami maður fari með umhverfismál og önnur mál og það þýði að umhverfismálunum sé illa sinnt. Ég fullyrði að svo er ekki. Ég hitti umhverfisráðherra Japans þegar hann kom hér heim og eins heimsótti ég hann til Japans í febrúar. Hann fer bæði með orkumál og umhverfismál og taldi það vera mjög skynsamlegt. Ef menn eru tilbúnir að fara í þessa umræðu á svona plani er ég til í það, en ég er miklu meira til í að ræða hér málefnalega um fjárlög þessa ráðuneytis.

Um það sem varðar þó ekki beint fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út núna, því að ekki er búið að taka ákvarðanir um breytingar í umhverfisráðuneytinu, hvorki í málaflokkum eða öðru, þá er slík vinna í gangi og hún gengur mjög vel. Þar eru mjög spennandi hlutir sem við ætlum að bera fram. Meðal annars hefur Vísinda- og tækniráð hvatt til þess að hér séu stærri rannsóknarstofnanir og ég hef sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnt sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar. Á sviði umhverfismála erum við líka með fjölmargar rannsóknarstofnanir, jafnvel eins manns rannsóknarstofnanir sem augljóst er að við þurfum að taka til skoðunar. Sú vinna er í fullum gangi og ég vænti þess að henni ljúki bráðlega.

Hvað varðar ráðherraskipan hef ég áður svarað því, þó það varði ekki fjárlög fagráðuneytis míns, að það er í höndum forsætisráðherra og þingflokks Framsóknar.