144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ef ég skildi fyrirspurn hv. þingmanns rétt um að umhverfismál væru í hennar huga úrgangsmál og fráveitumál sem við hefðum ekki sinnt nægilega vel og ekki væri nægileg áhersla á það, og eins hvað viðvíkur matarsóun, er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Staðreyndin er sú að þessi mál hafa ekki fengið nægilega athygli síðustu ár, hvorki úrgangsmálin né fráveitumálin. Svo eru að koma upp svona að sumu leyti spennandi mál eins og matarsóun. Auðvitað er það ekki spennandi og skemmtilegt að það skuli vera svona mikil matarsóun, en það er spennandi að fást við þau.

Við héldum mjög góða ráðstefnu að frumkvæði ráðuneytisins í vor um matarsóun og höfum verið að móta hugmyndir að aðgerðaáætlun. Það eru nokkur frjáls félagasamtök, Kvenfélagasamband Íslands, Landvernd og einstaklingar sem hafa stigið inn í það tómarúm sem hefur verið og varpað ljósi á þetta. Ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á því einnig. Ég held að það sé bara mjög gott.

Varðandi fráveitumálin setti ég í gang í fyrra endurskoðun á fráveitureglugerðinni með það fyrir augum að hún yrði einfölduð og gerð skilvirkari og skýrari. Við erum með ákveðnar kröfur á okkur í EES-samningnum. Þar inni eru engu að síður möguleikar fyrir ákveðið svigrúm. Við eigum ekki að horfa á fráveitumálin eins og við séum borg í miðri Evrópu heldur þá staðreynd að við erum strjálbýlt land og sums staðar eru fráveitumálin erfið. Það sama á við um úrgangsmálin. Á síðustu árum var brennslum einmitt lokað hér á landi vegna krafna um loftgæði án þess að menn horfðu til annarra lausna og sveitarfélögin hreinlega skilin eftir með vandann. Það er verkefni sem við síðan stöndum frammi fyrir að leysa núna. Þess vegna er þessi málaflokkur í heildarendurskoðun. Við tókum úrgangsmálin í gegn á þingi í fyrra og erum að vinna að því með hvaða hætti við getum síðan farið áfram inn í þennan málaflokk.