144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það var erfitt að vera ósammála nokkru af því sem hæstv. ráðherra sagði. Ég veit það að í utanríkisráðuneytinu fara menn vel með fé og séu þar fyrningar þá er það á fárra vitorði, nema kannski þeirra sem hafa verið utanríkisráðherrar í fjögur og hálft ár.

Ég er sammála ýmsum áherslum sem koma fram í þeim lið fjárlaganna sem lýtur að utanríkismálum. Ég er til dæmis glaður yfir því að sjá þar að núverandi ríkisstjórn hyggst feta í slóð fyrrverandi ríkisstjórnar varðandi þann samning sem við gerðum við Norðmenn á sínum tíma um sérstaka prófessorsstöðu í norðurslóðafræðum á Akureyri. Ég er líka glaður að sjá að hæstv. ríkisstjórn tryggir fé til þess að halda útibúi Þýðingamiðstöðvarinnar á Ísafirði og meira að segja, sem gleður mig enn meira, er hún búin að finna fjármagn til þess að koma líka upp útibúi á Austurlandi. Ég tel að það sé ákaflega jákvætt.

Mig langar að spyrja hæstv. starfandi utanríkisráðherra, ef hann getur svarað því, hvernig er háttað þeirri starfsemi Þýðingamiðstöðvarinnar sem sinnt er af lausráðnu starfsfólki í krafti starfa án staðsetningar.

Ég gleðst auðvitað yfir því að hæstv. ríkisstjórn stendur fast við hina nýju Evrópustefnu sína um að innleiða miklu betur en allar fyrri ríkisstjórnir allt það sem frá ESB kemur og má minnast þess að á sínum tíma á síðasta vetri tókst henni jafnvel að innleiða hér eina reglugerð áður en ESB setti hana formlega sjálft.

Það sem stingur í augu í utanríkismálahluta fjárlaganna, og ég græt beiskum tárum og söltum, er meðferðin á þróunarmálunum. Það vantar 2.300 milljónir til þess að við stöndum við þá áætlun sem Alþingi sjálft samþykkti. Það er rétt að rifja það upp, herra forseti, að Alþingi fór fram úr tillögu fyrrverandi ríkisstjórnar, Alþingi sló undir nára, gaf í og meira að segja framhlóð áætlunina. Og formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því hér yfir með sínum blíðu björtu augum, tindrandi af gleði, að hann teldi að þetta væri raunhæf áætlun og hann væri ánægður með hana. Sama gerðu allir þingmenn Framsóknarflokksins nema einn. En það er verið að bregðast skuldbindingum sem við höfum gefið örbjarga fólki, þeim sem verst eiga í heiminum. Þó hefur þessi ríkisstjórn sagt það algjörlega skýrt það sem af er þingi að Ísland er risið úr öskustónni og við erum eitt af ríkustu löndum veraldar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hefur hann hjarta og brjóst í sér til þess að svíkja með þessum hætti (Forseti hringir.) skuldbindingar sem við höfum gefið fátækustu þjóðum heimsins?