144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hér áður í dag að sú stefna sem fyrrverandi ríkisstjórn á síðasta ári kjörtímabilsins lagði upp í fjárlögum fyrir það ár hefði að óbreyttu endað í verulegum halla á fjárlögum þess árs. Þegar ný ríkisstjórn komst til valda var það okkar fyrsta verk að aðlaga það sem eftir var af því ári þeim raunveruleika sem við stóðum frammi fyrir. Það gerist meðal annars með þeim hætti að niðurstaðan af 2013 verður mun betri en menn óttuðust. Við lögðum síðan fram hallalaus fjárlög fyrir 2014 og ég veit ekki betur en það stefni í að það verði ágætur ávinningur af því, sem sagt umframávinningur, og við erum að stefna hér að hallalausum fjárlögum 2015, sem er líka mjög gott.

Við höfum því miður aldrei náð mjög hátt á þessum lista og ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þar þyrftum við svo sannarlega að gera betur. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn nefndi hvort hér ætti að fara að breyta stórkostlega öllum hlutum. Það er til skoðunar hjá ríkisstjórninni að skoða stofnanastrúktúr í öllum ráðuneytum, hvernig við getum betur komið ákveðnum þáttum fyrir. Það er einfaldlega þannig að sú vinna stendur yfir í öllum ráðuneytum og hefur staðið í heilt ár. Hv. þingmaður nefndi það áðan að honum fyndist sú vinna ganga hægt, að ekki væri komin niðurstaða í það eftir eitt ár. Ég held að það sé hið gagnstæða, ég held að það sé góður gangur í þeirri vinnu víðast hvar og muni skila sér mjög vel.

Svo ítreka ég að hæstv. utanríkisráðherra mun leggja fram nýja tillögu sem grundvallast á því að við erum komin með grunn til þess að byggja á. Við eigum orðið afgang til að vera (Forseti hringir.) verulega aflögufær á sama tíma og við greiðum niður verulegar skuldir ríkissjóðs.