144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson skildi við hann og ég hlýt að gera athugasemd við þá túlkun sem núverandi ríkisstjórn hefur sett fram um árið 2013. Það liggur alveg fyrir og sést þegar ríkisreikningur er skoðaður að árangurinn sem náðist á því ári er ekki síst fyrri ríkisstjórn að þakka, sem þá var búin að vinna að því í fjögur ár að ná niður hallanum á ríkissjóði eftir það hrun sem varð hér 2008.

Mér þykir því leitt, þegar við erum að ræða svona stór og mikilvæg mál eins og hlutfall af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu, að hér fari menn enn og aftur að rífast um það hver hafi náð þeim árangri að koma ríkinu á réttan kjöl. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra, sem kemur hér í forföllum hæstv. utanríkisráðherra, vilji fremur ræða hugmyndafræðina sem liggur að baki þeirri miklu skerðingu sem þróunarsamvinnan mátti sæta á síðasta ári, skerðingu sem ég fékk á tilfinninguna að hæstv. utanríkisráðherra væri ekkert sérstaklega glaður með. Hann lýsti að minnsta kosti ekki mikilli ánægju með hana þegar ég kom hér upp og spurði hann út í þessi mál og hafði þau orð að við fyrsta mögulega tækifæri yrði farið í uppbyggingu. En það er ekki ráðist í uppbyggingu því að við erum enn þá í sama hlutfalli og í fyrra. Og af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til Breta þá er rétt að þeir náðu að komast upp í 0,7% markmiðið, eins og ég hef skilið það, í fyrra eða á þessu ári, komast þar í hóp Norðurlandaþjóðanna, svo dæmi sé tekið, sem við viljum svo gjarnan bera okkur saman við.

Það er gríðarlega mikilvægt að fleiri þjóðir nái þessu markmiði, því að hvað erum við að gera? Við erum að hjálpa fátækustu ríkjum heims. Við erum í samvinnu við Malaví, Mósambík, Úganda, ríki sem raða sér mjög neðarlega þegar allir listar eru skoðaðir um ríkidæmi heimsins. Þar sem Ísland trónir tiltölulega hátt á toppnum eru þessi ríki langt fyrir neðan. Og það sem verið er að gera skilar árangri, það finnst mér stóra málið. Hér er ekki bara verið að meta árangur út frá því að einhverjir menn hafi verið sendir til þessara ríkja og einhverjar milljónir sendar heldur er verið að meta árangurinn út frá því hvaða áhrif sú aðstoð sem Íslendingar veita hefur haft á lífsgæði íbúa þessara ríkja. Jú, til að mynda hefur kólerutilfellum fækkað stórkostlega eftir að ráðist var í vatnsverkefni í Malaví. Í ýmsum svona verkefnum — fæðingarhjálp, sjúkdómar, lýðheilsa — getum við raunverulega lagt eitthvað af mörkum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra sem samþykkti þessa áætlun á sínum tíma með opin augu, um aukningu og hvort ráðherra, í ljósi orða hæstv. utanríkisráðherra í fyrra þegar hann sagði að fyrsta tækifærið yrði notað til að snúa við af þessari niðurskurðarbraut og hefja aukningu, telji það ekki eðlilegt að þetta verði forgangsmálið, að við getum sameinast um að byrja aftur uppbygginguna og færa þetta hlutfall upp (Forseti hringir.) og gera það strax á milli umræðna, því að þetta er miklu mikilvægara en svo margt annað sem við ræðum hér í þinginu.