144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum meira og minna sammála um mikilvægi þróunarsamvinnunnar og þess starfs sem þar er unnið. Það er mjög gott starf og hefur gengið mjög vel, þar vinnur okkar fólk mjög góða vinnu.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á. Sá sem hér stendur er bara starfandi utanríkisráðherra í dag en hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í fyrra að þetta væri honum mjög þungbært, eðlilega, og sagði eins og aðrir fyrrverandi utanríkisráðherrar sem hafa talað hér fyrr í dag og hafa sagt á hverjum tíma, að niðurskurður í þessum málaflokki er erfiður.

Við erum að auka í þessum málaflokki um á þriðja hundrað milljónir. Það er hins vegar einungis til þess að halda í horfinu í sama hlutfalli því að hér er hagvöxtur, hér erum við að stækka kökuna. Okkur gengur vel í efnahagsmálum og það er grundvöllur þess að geta komið fram með nýja áætlun þar sem við getum sett meira í þennan málaflokk í einhverjum skrefum. Utanríkisráðherra hefur kynnt að hann muni leggja fram slíka áætlun á yfirstandandi þingi. Ég ítreka enn og aftur: Það verður að vera innstæða fyrir því sem við gerum.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að það skilar okkur engu að rífast um fortíðina. Ég er líka sannfærður um það að fyrrverandi ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili var allan tímann að leita leiða til þess að skera niður þann halla sem við stóðum frammi fyrir haustið 2008. Ég held hins vegar að í fjárlögum 2013, svona síðasta daginn fyrir kosningar á kosningaári, hafi þáverandi ríkisstjórn gefið í á ýmsum sviðum sem ekki var grundvallað á sjálfbærri fjármögnun og þess vegna þurfti að taka í taumana. En það er kannski deila um keisarans skegg.