144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum að mörgu leyti sammála um mikilvægi starfs okkar í þróunarsamvinnu og þar gerum við marga hluti mjög vel. Eitt sem hefur ekki verið rætt í dag í þessari umræðu er m.a. þróunarstarf okkar tengt jarðhita, sem er gríðarlega mikilvægt og við höfum aukið stórlega. Það gæti nýst ekki bara til þess að skapa umhverfisvæna orku á viðkomandi svæði heldur sem framlag okkar til loftslagsmála heildarinnar í heiminum. Leiðtogar heimsins eru í auknum mæli farnir að horfa til þessa. Í umhverfisskýrslu OECD um Ísland, sem kom aðeins til umfjöllunar áðan, er einmitt bent á hversu framarlega við stöndum þar og hvað við getum gert. Það má nefna líka Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem við hýsum einar þjálfunarbúðirnar og eru gríðarlega mikilvægar.

Eins og hv. þingmaður benti á er ekki gert ráð fyrir neinum fjárframlögum í fjárlagafrumvarpinu til NATO. Á einum stað eru 14,4 millj. kr. og það er vegna þess að verið er að stækka hús, ef ég man rétt, og það er bara vegna okkar hluta í því.

Í NATO eru sum lönd með fasta prósentutölu, ég held upp á jafnvel 1 eða 2%. Við höfum aldrei verið með slíkt og ekki öll lönd innan NATO. Bent hefur verið á að við getum lagt margt gott til og höfum áður gert og ríkisstjórnin hefur fjallað um það. Það mun væntanlega koma til umræðu seinna, hugsanlega í fjárlögum á næsta ári.

En til að svara spurningunni um það, ef maður ætti að velja, hvort maður mundi setja peninga í hernað eða þróunaraðstoð í fátækjum ríkjum er svarið held ég nokkuð auðvelt. Auðvitað mundi maður alltaf setja peninga í þróunarstarf í fátækum ríkjum. (Forseti hringir.) En Ísland er jú ekki með her. Sú vinna sem við eigum innan NATO snýr að (Forseti hringir.) öðrum þáttum og þar höfum við gert mjög góða hluti alveg eins og í þróunarsamvinnunni og á þeirri braut munum við áfram vinna.