144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að við erum komin að þolmörkum í utanríkisþjónustunni eins og svo víða annars staðar í íslensku samfélagi. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar að aðhalds sé ævinlega þörf. Ég tek til að mynda dæmi af danskri stjórnsýslu þar sem menn gera að jafnaði um það bil 1% aðhaldskröfu á hverju ári. Það er jú ákveðinn vöxtur líka sem gerist og það er eðlilegt að menn yfirfari það á hverju ári. En sérstakir niðurskurðartímar hljóta að vera að baki ef við náum að ná hallalausum fjárlögum ár eftir ár og skilum vaxandi ávinningi af rekstri ríkisins.

Bara sem dæmi, og til að taka undir með þingmanninum, annars vegar um mikilvægi utanríkisþjónustunnar og hins vegar hversu langt við erum búin að ganga, voru starfsmenn viðskiptaskrifstofu fleiri en 30 þegar mest var en eru núna 15. Þetta kemur að lokum niður á því sem þessir starfsmenn eru að gera, þeir eru að hjálpa okkur við að verða öflugri í að selja vörur okkar úti í heimi sem er jú grundvöllur þess að við getum haldið uppi öflugu velferðarkerfi. Þegar allt er talið má segja að störfum í utanríkisþjónustunni hafi fækkað um hátt á fjórða tug frá fyrri hluta árs 2013 og út árið 2014. Ég tek því undir með hv. þingmanni, við getum ekki gengið lengra á þessari braut án þess að það komi verulega niður á störfum utanríkisþjónustunnar.