144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrirspurnina. Það er gleðilegt fyrir starfandi hæstv. utanríkisráðherra að allir þeir þingmenn sem hér hafa talað hingað til telji þjónustuna vera mjög góða, sem hún er, en að hana skorti meira fé til þess að geta orðið enn betri.

Það er vissulega þannig að verkefnin eru óendanleg. Sá niðurskurður sem ráðuneytið stóð frammi fyrir í fyrra hefur gengið mjög vel eftir. Það er komið gott skipulag á alla vinnu þannig að ég tel að við þurfum ekki að óttast það að ráðuneytið og stofnanir þess geti ekki sinnt verkefnum sínum. En vaxandi þörf fyrir enn frekari viðskipti og þá fríverslunarsamninga sem við viljum gjarnan gera kallar auðvitað á hugsanlegar nýjar sendiskrifstofur eða fleira fólk sem vinnur á þeim stöðum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti hér á undir lokin að við þyrftum að geta í nokkrum öðrum fagráðuneytum komið fyrr inn í EES-málin en við höfum gert á undanförnum árum. Það þýðir hins vegar talsvert fjármagn og þá er mjög mikilvægt að við byrjum á því að laga til, gera grunninn hreinan og fínan þannig að það sé jákvæð niðurstaða á rekstri ríkissjóðs. Þá getum við spurt hvar brýnasta þörfin sé fyrir fjármagn, hvar við fáum mest fyrir fjármunina sem við viljum leggja til, þá hljóta þessi mál að koma til greina ekki síður en önnur.