144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar menntunarstig okkar Íslendinga er ágætt að líta á plagg sem var að birtast frá OECD sem heitir: „Education at glance 2014“. Þar segir, með leyfi forseta:

„60% ungs fólks á Íslandi má eiga von á því að ljúka háskólaprófi einhvern tíma á lífsleiðinni miðað við brautskráningartölur fyrir árið 2012.“

Þetta er hæsta hlutfall nokkurs skólakerfis í skýrslunni og var mun hærra en OECD-meðaltalið sem stóð í 37% o.s.frv. Reyndar vekur það athygli hér að meðalaldur nýnema í fræðilegu háskólanámi á Íslandi var 26 ár, sem er hæsti meðalaldur nokkurs OECD-lands sem gögn voru til um. Meðalaldur nýnema innan OECD árið 2012 var 22 ár. Ég held því að ástæða sé til að horfa til þessara hluta þegar við leggjum mat á stöðuna.

Hvað varðar virðisaukaskattskerfið get ég alveg deilt því með hv. þingmanni að auðvitað hef ég nokkrar áhyggjur af þessu máli og hef gert fjármálaráðherra grein fyrir þeim. Hitt er það að að sjálfsögðu styð ég fjárlagafrumvarpið eins og það er lagt fram en ég tel að við þurfum að ræða og fara vel yfir þessi áhrif.

Ég vil þó benda á að ég lét taka það saman fyrir mig hversu miklu hver einstaklingur ver til bóka-, ritfanga- og blaðakaupa, þannig er þetta tekið saman, þessar tölur, eftir árum. Það verður samt að segjast eins og er að það er áhugavert hversu erfitt er að greina nákvæmlega breytingar á skattkerfinu þegar farið var úr 14% í 7% og sjá hvernig það hafði áhrif á neysluna. Ef horft er á þessa þætti sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni þá er líka svolítið erfitt að lesa nákvæmlega úr þessu. En ástæða er til að ræða þetta og fara vel yfir þetta og þá til hvers konar mótvægisaðgerða við viljum grípa ef þetta verður niðurstaðan.