144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar reynslu lands eins og Lettlands getur verið varhugavert að draga um of ályktanir þar af. Það geta verið svo margir þættir sem koma þar að og spila saman, almennt efnahagsástand, kaupmáttarþróun og aðrir slíkir þættir sem geta haft áhrif á sölu á bókum.

Ég vísa til þess enn og aftur að það er mjög áhugavert að skoða gögn sem ég lét taka saman um til dæmis kaup á bókum og blöðum, og reyndar þá ritföng með, það er erfitt að ná þeim út en ég held að það breyti ekki heildarmyndinni, að skoða þessar tölur miðað við mismunandi skattprósentur og skattkerfisbreytingar og átta sig á því hvaða áhrif það hefur haft í gegnum tíðina. Það breytir því ekki að ég get vel skilið þær áhyggjur sem hafa verið settar fram. Ég hef auðvitað kynnt mér þann málflutning og þau rök sem þeir sem standa að bókaútgáfunni hafa sett fram og ég tel nauðsynlegt að við höldum áfram að ræða þetta.

Hvað varðar sóknaráætlunina vil ég benda hv. þingmanni á að þess sér nú reyndar þannig stað að það var tekin ákvörðun um að það yrði enginn niðurskurður á menningarstarfseminni að þessu sinni heldur var henni algerlega hlíft allri við slíkum niðurskurði. Þó er hægt að nefna eitt eða tvö dæmi þar sem kemur eilítill niðurskurður frá síðasta ári en á heildina var ákveðið að skera ekki niður og heldur bæta þar í hvað varðar lykilstofnanir sem eru grundvöllurinn fyrir menningarstarfseminni. Það er einn þáttur málsins.

Ég vænti þess að fleiri þættir muni síðan í framhaldinu líta dagsins ljós en ég bendi sérstaklega á að auðvitað skipti máli að staðið er við það samkomulag sem gert var varðandi kvikmyndirnar.

Þá kem ég að Kvikmyndaskólanum. Það hefur ekki verið gerður langtímasamningur við skólann, þ.e. þriggja ára samningur. Það er enn unnið innan þess ramma sem verið hefur, eins árs samningar, þannig að þar hefur ekki í sjálfu sér orðið nein stefnubreyting.

Hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna hefur nýverið komið út skýrsla sem sýnir að staða sjóðsins er mjög viðkvæm. Það eru ýmsar breytingar sem hafa verið gerðar á undanförnum árum, t.d. eins og afnám ábyrgðarmanna, sem eru til þess fallnar að auka þegar upp verður staðið þörfina á ríkisframlagi. Það er nauðsynlegt að það fari fram mjög góð umræða um stöðu lánasjóðsins. Hvað varðar róttækar breytingar vil ég ekkert segja um það á þessum tíma en það er augljóst að við þurfum að grípa inn í áður en sjóðurinn veikist.