144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég velti því kannski fyrir mér með þessar upphæðir eða þennan styrk vegna átaksins Nám er vinnandi vegur, það hefði kannski ekki kostað neitt að senda hinum póst og láta þá vita hvernig þetta yrði.

En ég ætla aðeins að halda áfram að „kjördæmast“ hér og tala um skóla sem stendur hjarta mínu nær og það er Fisktækniskólinn. Ég fagna því að á fjárlögum er 19 millj. kr. framlag til skólans til 2018 en mig langar til að vita hjá ráðherra hvort nemendaígildin verða ekki reiknuð þar inn í. Eins og hann veit örugglega hefur mikil ásókn verið í þennan skóla, honum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, ef svo má segja, en það vantar þetta fjármagn með nemendaígildunum og mig langar til að spyrja hann að því hvernig það stendur.

Eins langar mig til að nefna æskulýðs- og íþróttamál sem virðast standa í stað, ekki virðist mikið sett í þau. Ég lýsi miklum áhyggjum af því vegna þess að við erum stödd þannig í dag að við getum ekki einu sinni haldið úti landsliðunum okkar. Mér finnst ótrúlega sárt að við getum ekki haldið úti landsliðunum. Mér finnst hreinlega að ríkið eigi að veita styrki í það að landsliðin geti farið í keppni erlendis. Við höfum séð hvað þetta hefur gríðarlega mikið að segja, góður árangur, og ekki síst nú á síðustu vikum — ég nefni körfuboltalandsliðið og knattspyrnulandsliðið sem hafa verið að bera hróður okkar víða. Knattspyrnusambandið er kannski eina íþróttasambandið sem er sjálfbært og hefur nóg af peningum úr að spila. Ég vona svo sannarlega að ráðherra sé sammála mér um að berjast fyrir því að auka framlög í þetta þó ég viti að hart sé í ári, þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram. En í fallegum ræðum á góðum dögum er allt hér á blússandi uppleið og kraftaverk hafa gerst á einu ári eftir því sem þingmenn stjórnarinnar segja.