144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Í starfshópi sem hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir skipaði til þess að skoða hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun kemur fram um mannauðinn að hagnýting með internetinu byggist fyrst og fremst á hugviti. Á alþjóðlegum samfélagsmörkuðum er hart barist um hæfustu einstaklingana og því mikilvægt að byggja upp mannauð í landinu sem er samkeppnishæfur á alþjóðavísu.

Í nýlegri skýrslu, frá því í janúar á þessu ári, frá World Economic Forum kemur skýrt fram að það eru tvö atriði sem þarf að hafa í huga ef ekki á að verða eftir á í að nýta upplýsingatækni við menntun. Þar er talað um annars vegar að nýta skuli námskeið yfir netið, sér í lagi þau námskeið sem eru samþykkt af stórum og virtum háskólum, að meta eigi þau til eininga í landinu. Þetta er eitthvað sem ég er búinn að ræða við rektor Háskólans í Reykjavík og það er mjög mikill áhugi fyrir þessu. Þetta mál varðar þó kannski ekki beint eitthvað sem menntamálaráðherra þarf að skipta sér af og sérstaklega ekki í fjárlögum.

Hitt atriðið er það sem er kallað, með leyfi forseta, „The Digital Divide“, eða þetta gap við að nýta upplýsingatæknina og það er tvíþætt. Annars vegar er það að „infrastrúktúrinn“ sé til staðar og græjurnar, tölvurnar, spjaldtölvurnar séu til staðar til þess að hægt sé að nýta upplýsingatæknina á staðnum og hins vegar að ungt fólk og fólk sem er að mennta sig sé menntað í upplýsingalæsi, að það verði hæfir notendur upplýsingatækninnar, og forritun er eitt af þeim tungumálum sem þarf að læra til þess að vera læs á upplýsingatækni. Þetta er það sem starfshópurinn, sem ég leiddi fyrir hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur, lagði til og lagði fyrir menntamálaráðherra. Varðandi þessa tvo þætti um „Digital Divide“, hvað er það sem menntamálaráðherra og þingið, þegar kemur að fjárlögum, þurfa að huga að núna við meðferð málsins í þinginu? Hverju þarf að huga að og hvernig getur ráðherra haft áhrif á það og þingið þannig að til sé peningar til að grípa þessi tækifæri, af því að annars verðum við eftir á?