144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar ágætu og málefnalegu ábendingar. Fyrst hvað varðar fyrsta liðinn sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. að námskeið yfir netið verði metin til eininga. Ég held nefnilega að það sé gríðarlega stórt mál og það er eiginlega erfitt að ofmeta þann þátt málsins. Það er svo að margir af stærstu, frægustu og bestu háskólum heims eru í sívaxandi mæli að setja fyrirlestra á netið og eru þeir opnir öllum.

Ég hef líka rætt þetta við rektor Háskólans í Reykjavík — það er ágætt að við hv. þingmaður höfum báðir gert það — af því að mér finnst þetta mjög spennandi. Það er mjög spennandi fyrir okkur að allt í einu geta nemendur hér eins og annars staðar haft aðgang að þessu námi, þessu framboði, það er spennandi.

Hvað varðar þetta gap sem hv. þingmaður nefnir og hefur áhyggjur af vil ég fyrst segja hvað varðar seinni þáttinn, b-liðinn, menntun í upplýsingatækni, færni, forritun og öðrum slíkum þáttum, að þetta er alveg hárrétt. Þetta eru grundvallarforsendurnar, þú verður að hafa þetta. Að sjálfsögðu skiptir læsi máli. Læsi er mjög flókið fyrirbæri og það eru til margar tegundir af læsi. Það skiptir miklu máli að geta lesið texta og stafi en myndlæsi og annað upplýsingalæsi er líka mjög mikilvægt.

Þó er rétt að hafa í huga hvað þetta varðar að mikilvægt er að þjálfa fólk, ekki aðeins í því að geta aflað sér alls konar gagna og margra og fara vel yfir yfirborðið heldur líka að geta lesið á dýptina. Menn hafa haft áhyggjur af því að það sé svolítið að þróast þannig hjá okkur læsið að dýptarlesturinn er að minnka, þ.e. að setja sig vel inn í málin og kafa mjög djúpt ofan í þau, hafa til þess þolinmæði og þrek.

Hvað varðar tölvur og annan útbúnað er það líka spurning um fjármuni. Þá er rétt að hafa það í huga, (Forseti hringir.) og við eigum kannski eftir að ræða þetta áfram hér, að sveitarfélögin eru með grunnskólastigið og ríkisvaldið síðan með framhalds- og háskólastigið.