144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Já, nákvæmlega, þegar kemur að framhaldsskólunum er það ríkið sem veitir fé. Það sem ég er að reyna að átta mig á, ég þekki ekki nógu vel til, er hvað það er sem við á Alþingi og hæstv. ráðherra sem starfandi ráðherra getum gert til þess að tryggja að það sé til fé í þennan þátt. Það segir mjög skýrt í skýrslunni að þeir sem taka ekki vel á þessum þáttum verða eftir á. Við höfum hreinlega ekki efni á því að verða eftir á hvað þetta varðar, það mun kosta okkur alveg ofboðslega mikið.

Hvað varðar störf í framtíðinni, á næstu 20 árum verða 50% af þeim störfum sem við þekkjum farin. Tölvur og róbótar verða búin að taka þau yfir. Það kemur fram í skýrslu frá Oxford á síðasta ári. Tímaritið Economist gerði úttekt og hafði þetta sem forsíðuumræðuefni. Og hvað þarf til? Það þarf tölvulæsi til þess að geta unnið þau störf sem þó verða til. Þau störf verða til fyrir þá sem hafa upplýsinga- og tölvulæsi. Þar eru stóru störfin í framtíðinni. Ef við tökum ekki á þessu strax verðum við eftir á.

Þess vegna spyr ég: Hvað er það sem hæstv. menntamálaráðherra getur gert og við sem þing getum gert við vinnslu þessara fjárlaga til að tryggja að til séu fjármunir til að fara í þessi verkefni? Það verður líka sparnaður og það verður minna brottfall ef þessi verkfæri, sem þegar eru til, eru notuð til að fylgjast með námsframvindu nemendanna, ekki einungis til að fylgjast með því sem hægt að er sjá á Facebook, t.d. hvort þú er hættur í sambandi, heldur til að skoða hvort áhuginn fer minnkandi eða er að aukast eða hvort ákveðin lexía virkar vel.

Þetta sparar tíma, þetta sparar peninga þegar fram í sækir. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki bara útgjöld sem hverfa í eitthvert hyldýpi. Þetta sparar peninga strax og verður til þess að við verðum með miklu verðmætari mannauð inn í framtíðina.