144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar málefni þeirra tveggja háskóla sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. Háskólans á Hólum annars vegar og Landbúnaðarháskóla Íslands hins vegar, þá er rétt að fjárframlög til þeirra skerðast.

Framlag til Hólaskóla lækkar um 0,7 millj. kr. og breytinguna má aðallega útskýra af tvennu, annars vegar hækkar framlagið til hans um 4 millj. kr. vegna hækkunar á einingaverði ársnema samkvæmt reiknilíkani og hins vegar lækkar framlagið um 3,8 millj. kr. vegna markmiðs ríkisstjórnarinnar um jöfnuð i ríkisfjármálum. Það skýrir það að mestu.

Síðan hvað varðar Landbúnaðarháskólann, sá skóli mætir aðhaldskröfunni, þ.e. markmiði ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum, sem þýðir að framlag til skólans lækkar um 7,8 milljónir. Hann nýtur aftur á móti ekki góðs af þeim hækkunum sem urðu á verðflokkum í reiknilíkaninu þar sem nemendur skólans eru í öðru námi, en nám það sem þarna er stundað er ekki í þeim verðflokkum sem hækkuðu. Ekki voru allir verðflokkar hækkaðir, það var reynt að hækka þá verðflokka sem augljóslega voru mjög veikir og þurftu viðbætur.

Allir hér inni þekkja sögu þessara tveggja skóla og þau rekstrarvandræði sem þar hafa verið um langa hríð. Það voru hér uppi hugmyndir um breytingar á stöðu mála á Hvanneyri. Þær hafa ekki náð fram að ganga. Fyrir liggur mjög skýr krafa um að skólinn haldi sig innan fjárlagaheimilda og eins að um hann gildi hið sama og allar aðrar skólastofnanir og ríkisstofnanir, að þar sem hefur myndast halli verði byrjað að greiða eitthvað til baka. Það liggur auðvitað fyrir og er alveg ljóst að þessi stofnun mun aldrei greiða allt aftur til baka sem fram úr hefur verið farið, það getur aldrei orðið nema lítill hluti af (Forseti hringir.) þeirri upphæð. En með stjórnendum skólans er verið að vinna að því að koma þessum málum í gott skikk og ég ætla að leyfa mér að hrósa þeim sem þar eru að vinna fyrir mjög góða vinnu sem unnin hefur verið.