144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:48]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Takk fyrir það, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ég vil hins vegar ítreka margþætt hlutverk skóla af þessum toga, sem ég kom inn á áðan.

Mig langaði aðeins til þess að koma inn á ýmis framlög. Ég spyr um Hvalasafnið á Húsavík, er ekki gert ráð fyrir framlagi þangað?

Svo vil ég nota þessa einu og hálfu mínútu til þess að hrósa hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir það sem hann er að gera varðandi læsi. Ég get tekið undir með hv. þm. Jóni Þór — hann var að ræða um tölvulæsi. Grunnurinn að tölvulæsi er auðvitað að einstaklingurinn sé læs. Ég hef lengi haft áhyggjur af drengjum sérstaklega, í grunnskólum og framhaldsskólum, og möguleikum þeirra á því að verða læsir. Það eru allt of margir ungir drengir sem gefast upp á námi vegna þess að þeir ná ekki tökum á lestri og það þarf auðvitað að vinna að því að við komum öllu okkar unga fólki út úr grunnskólunum fulllæsu. Það er grunnur að velferð þess.

Hins vegar er ekki nóg að beina sjónum að læsi, það þarf líka að taka inn stærðfræði og þjálfa unga fólkið vel þar. Síðan er einn þáttur sem menn gleyma kannski að leggja eins mikla rækt við og það er úthaldið. Það er allt of algengt að unnið sé í stuttum lotum. (Forseti hringir.) Það þarf að þjálfa úthald. Það er meðal annars tengt læsi.