144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þær eru býsna stuttar, þessar tvær mínútur, þegar margt er undir. Mig langar bara í almennum orðum að lýsa frekar ánægju en hitt með að Háskóli Íslands skuli almennt vera opinn fyrir fólk á öllum aldri. Ég held að það sé styrkur íslensks samfélags frekar en hitt að við förum í skóla alla ævi og að okkur þyki það bara eðlilegt og gott.

Hæstv. ráðherra vísar í skýrslu OECD sem er auðvitað mikilvægt plagg en þá langar mig að segja að þar kemur líka fram að framlög til háskólastigsins á Íslandi fara enn lækkandi í samanburði við meðaltal OECD-ríkjanna, og sérstaklega miðað við Norðurlönd. Nú er svo komið að Háskóli Íslands þyrfti að hafa um 6 milljarða kr. hærri heildartekjur svo OECD-meðaltalinu væri náð. 11 milljarða kr. vantar í samanburði við Norðurlöndin.

Ég vænti þess að í sínu síðara svari geti hæstv. ráðherra vikið að stöðu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Hann hefur aðeins farið yfir framtíðarsýn sína varðandi þau mál en jafnframt rakið þá pólitísku stöðu málsins að hann telji ekki unnt að fara fram með þá stefnu sem hann telji menntuninni fyrir bestu, þ.e. þeirri sem þar fer fram. Óvissan um framtíð skólans á Hvanneyri er gríðarlega erfið, bæði fyrir nemendur skólans og allt rannsókna- og starfsumhverfið þar. Ábyrgðin á þeirri óvissu er einfaldlega í höndum ráðherrans og ráðherrann verður að tala skýrt út í þetta umhverfi þannig að fólk viti á hvaða leið við erum.

Ég vil líka brýna ráðherrann hvað varðar stafræna íslensku. Þegar við erum að tala um læsi erum við líka að tala um styrk og stöðu íslenskrar tungu. Ég held að það sé afar mikilvægt að við rjúfum ekki samhengi þessara hluta.

Loks vil ég alveg í lokin, ef ráðherrann kemur því að, spyrja hann hvort táknmálstúlkun í daglegu lífi sé eðlilega fyrir komið í þessu frumvarpi.