144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að 11 milljarða skattahækkuninni sem hv. þingmaður vék að. Hann kýs að sjálfsögðu eins og hann hefur gert við alla þessa umræðu að horfa algerlega fram hjá skattalækkunum sem koma á móti á ýmsar nauðsynjavörur sem til dæmis eru í efra þrepinu og horfir líka fram hjá vörugjaldaafnáminu sem skilar um 6 milljörðum til heimilanna í landinu. Það er enginn annar en heimilin í landinu sem greiðir þá 6 milljarða, það eru þau. Samantekið horfir hann að sjálfsögðu fram hjá því að heildaráhrifin af þessum skattkerfisbreytingum eru þau að ríkissjóður verður af tekjum upp á um 3 milljarða.

Hvað verður um þessa peninga? Þeir fara til heimilanna í landinu, það er það sem gerist. Það eru algjör öfugmæli að tala hér um að það sé verið að auka skattbyrðina. Það eru bara öfugmæli, ekkert annað.

Þegar ég segi að það sé sjálfsagt að skoða hvort hægt sé að gera hlutina öðruvísi er ég ekki síst að horfa í mótvægisaðgerðirnar. Ég er opinn fyrir málefnalegri umræðu um það hvort nóg sé að gert í mótvægisaðgerðum. Við teflum fram okkar tillögum. Ég mæli fyrir þessum tillögum, tek ábyrgð á þeim og stend með þeim, en það er sjálfsagt að ræða þær hér í þinginu. Mér finnst það skylda þingsins, og ég held að það finnist öllum, að fara ofan í saumana á þeim og sjá hvernig það kemur út. En ég stend með tillögunum þannig að það sé alveg sagt.

Efra þrepið lækkar niður í það lægsta sem það hefur verið í, fer ofan í 24%. Efra þrepið er hvergi lægra á Norðurlöndunum. Þið finnið ekkert land á Norðurlöndum þar sem hærra þrepið er lægra en 24%. Sömuleiðis er ekki hægt að finna neitt land á Norðurlöndum, sem menn vilja gjarnan líta til í umræðu um þessi mál, þar sem lægra þrepið er lægra. (Forseti hringir.) Ekkert land á Norðurlöndum er með lægra þrep en 12%. Þetta er ágætt að hafa í huga í þessu samhengi.