144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að ræða um skatta við þá sem sátu hér í eða studdu síðustu ríkisstjórn, þá sem hækkuðu skatta á heimilin um 65 milljarða haustið 2009 þegar bent var á aðrar leiðir, héldu svo áfram ár eftir ár. Nú tala þeir um það hér þegar ríkið er að gefa eftir af skattstofnum sínum um tæpa 3 milljarða og bætir síðan í bótaflokkana að verið sé að hækka skatta á fólkið í landinu. Það er svo augljóst af þessum málflutningi að menn eru algerlega veruleikafirrtir.

Tekjuaukningin ein sem átti að koma af breytingum á tekjuskattskerfinu var umfram það sem við erum að ræða hér, langt umfram það. Þó að við værum ekki að gera neitt annað en að hækka neðra þrepið væri þetta umfram það. Neysluskattarnir haustið 2009 hækkuðu um 25 milljarða, beinu skattarnir um tæpa 40. Vissulega var við erfiðar aðstæður að etja en hættum þeim skrípaleik að gera einhvern samanburð á milli þess sem hér er að gerast og hefur verið að gerast á undanförnum árum. Það er bara skrípaleikur. Þetta er útúrsnúningur og þetta er ekki uppbyggilegt fyrir umræðuna sem við erum að hefja hér.

Það sem skiptir öllu máli hér eru heildaráhrif aðgerðanna. Þau eru til þess að auka kaupmátt. Það hefur verið dregið fram nú þegar af hagsmunasamtökum úti í bæ hverjum á eftir öðrum að áhrifin á heildarútgjöld heimilanna eru svipuð vegna matarinnkaupa óháð tekjuhópum. Yfir þetta verður farið nánar í þinginu og í vinnu nefndarinnar og ég hlakka til þeirrar umræðu.

Varðandi mótvægisaðgerðir tel ég þær vera (Forseti hringir.) fullnægjandi í þessu frumvarpi, en ég mun hins vegar fylgjast vel með þeirri vinnu sem er fram undan.