144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessar útskýringar duga ansi skammt. Það heitir hjá fyrri ríkisstjórn að ferlið er mýkt þegar menn fresta því að ná hallalausum fjárlögum. Þegar við nú vindum ofan af stanslausum skattahækkunum, bæði á atvinnustarfsemina og heimilin, lýsa menn vonbrigðum með það að ekki skuli vera gengið nógu hart fram við að mynda hér alvöruafgang. Það er ekkert verið að tala um mjúka lendingu fyrir heimilin og atvinnulífið í því tilliti. Við erum einfaldlega að skila til baka til heimilanna álögum sem ganga ekki upp og voru reyndar að hluta til settar tímabundið á af fyrri ríkisstjórn sem skilur síðan ekkert í því þegar viðkomandi ráðstafanir renna út á tíma. Með þessu er þróttur atvinnulífsins aukinn og kaupmáttur heimilanna. Það sýna líka hagtölurnar að við erum á ágætissiglingu. Ég hef ekki sömu áhyggjur, þó að við þurfum að fylgjast nákvæmlega með framvindunni, sem komið hafa fram í máli hv. þingmanns og annarra í kvöld, af því að við séum að sigla inn í einhverja aðra viðlíka bólu og sprakk hér fyrir skömmu. Ég hef alls ekki sömu áhyggjur.

Þær birtast heldur ekki í spám Seðlabankans eða annarra. Þvert á móti virðist ætla að halda áfram ágætisjafnvægi. Einkaneyslan er að hækka, það er rétt, en hún er langt frá því að vera komin upp í þær hæðir sem hún var áður, langt frá því. Ætli hún sé ekki í kringum 80% af árinu 2005?

Menn verða að hafa í huga, þegar einkaneyslan tekur við sér, úr hvaða lægðum hún er að rísa, úr hvaða lægðum við erum að koma. Það er í þessu ástandi merki um að heimilin séu að braggast þegar einkaneyslan tekur við sér. Það er ekki eitthvert stórkostlegt hættumerki, það eru ekki að blikka mikil viðvörunarljós við þær aðstæður, heldur sýnir að aðgerðir til að styðja við heimilin eru að skila árangri.