144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður sagði felst mikil einföldun í afnámi vörugjaldanna en það eykur líka jafnræði í virðisaukaskattskerfinu að ekki sé þessi mikli munur milli þrepanna sem hefur verið. Ég tel að það sé mikilvægt og að það muni auka skilvirkni virðisaukaskattskerfisins sem er líka mikilvægt. En eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, og ég vísa þar til töflu virðisaukaskattskerfa, þá er íslenska virðisaukaskattskerfið óskilvirkt. Það er vegna þess að það eru það margar undanþágur í kerfinu, hátt hlutfall vöru og þjónustuviðskipta er undanþegið og þar spilar líka inn í munurinn milli þrepanna sem er sá mesti sem fyrirfinnst, 18,5%, það er allt of mikill munur milli tveggja þrepa.

Að öðru leyti varðandi áhrifin á matarkörfuna þá vil ég vekja athygli á því að þegar valin eru dæmi um lágtekjufólk sem byggir afkomu sína á öðru en tekjum, til dæmis eins og lánum, sem á við um námsmenn er ekki verið að bera saman epli og epli, þá erum við farin að bera saman epli og appelsínur. Það er mjög auðvelt að sýna fram á það að heildarneysla þeirra sem eru í þessari stöðu er langt langt umfram 100% af tekjum. Hvernig eigum við að nota slík dæmi til samanburðar við aðra þar sem við erum að tala um hlutfall af tekjum? Þetta eru auðvitað dæmi sem ganga ekki upp. Þess utan er algerlega horft fram hjá öllum þeim stuðningi sem felst til dæmis í lánakerfinu við námsmenn sem á endanum greiða að jafnaði ekki nema aðra hverja krónu af láninu til baka að raungildi.