144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:07]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hrædd um að hæstv. fjármálaráðherra hafi misskilið mig af því að ég minntist ekki einu orði á námsmenn í ræðu minni. Ég var að tala um umgengnisforeldra, þ.e. hvernig hækkun barnabóta, eða leiðrétting frá fyrra ári, getur verið mótvægisaðgerð gagnvart umgengnisforeldrum. Þetta er bara einn hópur sem er undanskilinn þarna af því að hæstv. ráðherra hefur sjálfur talað um að þetta sé mótvægisaðgerð til að jafna út matarkörfu barnafólks. Ég vil bara benda á þennan stóra hóp fólks sem á vissulega börn og sér um börn jafnvel helming tímans. Við vitum að það er ójafnræði þar og ég er ekki að ræða barnalögin. Ég er bara að ræða það að þarna er stór hópur fólks sem á ekki kost á neinum mótvægisaðgerðum þrátt fyrir að eiga börn. Það var bara einn hluti af ræðu minni.

Að öðru leyti þakka ég fyrir svörin. Ég er sammála því að það er einföldun að taka þarna einn hóp úr 0% en ef við veltum aðeins upp smápælingu sem hefur ekki verið rædd og spyrjum: Hvað er réttlætanlegt við það að matarskatturinn sé þarna í öðru þrepinu, hvort sem það er 7% eða 12%, en við getum verið með atvinnurekstur í 0% eins og til dæmis ferðamálaiðnaðinn? Nú er ég ekki að leggja til að hann fari ofar en hver eru rökin fyrir því? Eins bara tryggingastarfsemi. Við virðumst hafa efni á því að hafa fleiri flokka þarna í 0%. Ég hefði viljað sjá fleiri fara upp frekar og lægri prósentu til að jafna út jafnræðismálin.