144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Varðandi forgangsröðunina er staðreyndin sú að á Íslandi erum við með hálfklikkað heilbrigðisfyrirkomulag. Hið opinbera segist ætla að hugsa um sjúklinga. Fólk trúir því að ef það veikist sé það nokkuð öruggt og þurfi ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur þangað til það svo verður veikt og lendir í því að hafa virkilegar fjárhagsáhyggjur. Fólk fattar þetta yfirleitt ekki fyrr en það veikist og verður langveikt. Það er ákveðið prinsipp sem er innleitt í lög hér og þar um heiminn sem er að ef þú stoppar á slysstað hefurðu þar með gefið öðrum til kynna að þú ætlir að sinna sjúklingnum, sinna hinum slasaða, þannig að aðrir keyra fram hjá. Ef þú stoppar á slysstað berðu ákveðna ábyrgð gagnvart því.

Nú hefur ríkið í vissum skilningi stoppað á slysstað og sagt: Við ætlum að hugsa um heilbrigðið. Og einkageirinn er ekki í því, eða svo virðist ekki vera. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag hvort hann vissi hvort það væru einhverjar leiðir til þess og hvað það mundi kosta að tryggja sig þannig að maður þyrfti ekki að hafa fjárhagsáhyggjur. Erum við með öflugar heilsutryggingar á Íslandi þannig að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu? Ég veit það ekki. Veit hæstv. ráðherra það?

Við virðumst ekki vera með öflugan einkatryggingageira þegar kemur að heilbrigðisþjónustu vegna þess að hann hefur ekki fengið að þroskast, af því að ríkið sér um þetta og aðrir keyra fram hjá. Þannig er staðan á Íslandi í dag, það er þess vegna sem ég er að spyrja að þessu. Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki að fólk vilji heilbrigðiskerfi þar sem það þarf ekki að hafa fjárhagsáhyggjur? Telur heilbrigðisráðherra ekki að svoleiðis forgangsröðun sé það sem almenningur í landinu vill?