144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tel að það sé eitt meginhlutverk okkar í heilbrigðiskerfinu að tryggja að fólk eigi þar bæði greiðan aðgang óháð efnahag og afkomu og að langveikir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að kostnaður safnist þannig upp að það sé ekki við það ráðið. Við erum því miður með dæmi um að langveikir lendi í umtalsverðum útgjöldum og það er til skoðunar hvernig við getum tekið á því. Ég tel að það muni ekki finnast neinar töfralausnir á því. Með því er ég að segja að ef við finnum ekki leiðir til að auka heildarfjármagnið sem fer í málaflokkinn, að halda niðri kostnaði sjúklinga, erum við aðeins að færa til fjármuni.

Ef við ætlum að færa til fjármuni, frá þeim hlutfallslega fámenna hópi sem á við langvarandi veikindi að stríða yfir til þeirra sem glíma við skammvinnari veikindi, kemur upp klassískt pólitískt vandamál sem er það að fjöldinn þarf að taka á sig auknar byrðar til þess að tiltölulega fáir geti lifað mun betur með kerfinu.

Ég ætla að geta mér til um það fyrir fram að þetta muni valda miklu umróti, uppþoti og háværum mótmælum, bæði hérna á þinginu og utan þings. Samt sem áður tel ég að þetta sé það sem í raun og veru þurfi að gera. Það þarf að dreifa byrðunum í kerfinu með sanngjarnari hætti til þess að það sé ekki fámennur hópur sem sitji uppi með eins háan reikning og dæmi eru um.