144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skattsvik.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Jú, ég tek svo sannarlega undir það að við eigum að beita öllum skynsamlegum ráðum til að draga úr skattsvikum, haga skattkerfinu þannig að það sé ekki að óþörfu verið að skapa einhvers konar freistni eða hvata til að haga sér með ólögmætum hætti. Við eigum líka að tryggja að það sé fullnægjandi eftirlit til staðar.

Undanfarna daga hefur verið til umræðu að það skuli dregið úr framlögum til skattrannsóknarstjóra á fjárlögum næsta árs. Í því sambandi er vert að athuga að eftir hrun og þá atburði sem gerðust í tengslum við það þótti ástæða til að veita sérstakt viðbótarframlag til skattrannsóknarstjóra í tvö ár. Að þessum tveimur árum liðnum var ákveðið að gera það að nýju í önnur tvö ár, sérstakt viðbótarframlag sem sagt í fjögur ár. Í fjárlögum næsta árs er þessu sérstaka viðbótarframlagi að hálfu haldið áfram en vegna þess að nú er nokkuð um liðið síðan þeir sérstöku atburðir gerðust sem kölluðu á átak í starfsemi skattrannsóknarstjóra þykir það varlegt og fullnægjandi til að halda eðlilegri starfsemi þar áfram.

Það felst engu að síður ákveðinn grundvallarmisskilningur í því að telja að allar skattrannsóknir á landinu fari fram hjá skattrannsóknarstjóra vegna þess að megineftirlitið fer fram hjá ríkisskattstjóra. Hann hefur til dæmis borið veg og vanda af eftirliti með skattskilum í ferðaþjónustunni með sérstöku átaki sem hefur ekki bara náð til höfuðborgarsvæðisins heldur víðar og fylgst hefur verið með því hvernig ferðaþjónustan starfar á internetinu, gistirými boðin þar o.s.frv. þannig að við eigum að halda áfram að berjast gegn skattsvikum en við eigum að gera það með (Forseti hringir.) markvissum og skilvirkum hætti.