144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skattsvik.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel reyndar að við ættum að hugsa þessi mál í aðeins víðara samhengi, ekki bara út frá eftirlitinu heldur líka innheimtunni. Það er mikið umhugsunarefni hversu háar fjárhæðir þurfti að afskrifa í ríkisreikningi fyrir árið 2013, afskrifa af skattkröfum, kröfum sem við töldum innheimtanlegar. Það er svo sem alltaf gert ráð fyrir því í tekjuáætlun ríkisins að ekki innheimtist allt álagt en þar þurfti að færa til gjalda rúmlega 20 milljarða af skattkröfum, 20 milljarða sem menn töldu að mundu innheimtast en sem innheimtust ekki. Það setur málið í miklu stærra samhengi en bara eitthvert skattrannsóknarsamhengi eða skatteftirlitssamhengi.

Við þurfum að spyrja okkur hvort menn séu of auðveldlega, jafnvel með lögmætum hætti, að koma sér undan því að greiða álagða skatta og gjöld.