144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

mygluskemmdir í húsnæði.

[15:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég hitti nýlega konu sem þurfti að flýja heimili sitt með börnin sín vegna eitrunar af myglu í íbúðinni og sameign. Hún hefur leyft mér að segja þingheimi sína sögu. Börnin og hún eru greind með ofnæmi fyrir myglu af lækni hjá Domus Medica. Þau voru öll orðin mikið veik. Þau hafa núna náð ágætri heilsu nema sonurinn sem hefur ofnæmi fyrir hundum, en nú þurfa þau að búa á heimili með annarri fjölskyldu þar sem hundur er.

Þetta er sjö ára saga þar sem þau fengu enga úrlausn, enga réttarúrlausn. Þau kaupa íbúðina í júní 2007, það eru fjórar íbúðir í húsinu og 48% berjast fyrir viðgerðum en 51% segja nei. Þegar farið er fram á dómkvaddan mann og farið alla leiðina er reynt að stöðva málið, tefja það, ekki mætt í dómsal, málið þæft, dómkvaddur einstaklingur kominn í málið og lætur rannsaka það, skýrslan engan veginn fullnægjandi. Það er klárlega mikill leki á heimilinu og mygla. Engin úrlausn fæst. Þessi kona bað mig um að bjóða þingheimi og hæstv. ráðherra í heimsókn til þeirra til að sjá ástandið. Hér er eitthvað ekki að virka. Ef einstaklingar sem búa í íbúð sem er svona skemmd af myglu, og læknir hefur sagt að fjölskyldan sé með mikla myglueitrun, fá ekki úrlausn í kerfinu er klárlega eitthvað mikið að.

Þessi kona vill endilega bjóða þingmönnum og starfshópnum sem var skipaður á grundvelli þingsályktunartillögu hæstv. fyrrv. ráðherra Kristjáns Möllers sem við samþykktum í vor í vettvangsferð í Álfheima 23 til að sjá heimili sem fjölskylda hefur þurft að flýja vegna leka og myglueitrunar.

Er ráðherra tilbúinn að koma í slíka vettvangsrannsókn? Og hvað sér ráðherra fyrir sér að hún geti gert í þessu máli? Hún veit náttúrlega ekki mikið um málið á þessum tímapunkti, en hverjar eru hugmyndir ráðherra hvað þetta varðar?