144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skuldaniðurfærsla fyrir leigjendur og búseturéttarhafa.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi félagslega húsnæðið er sá málaflokkur á ábyrgð sveitarfélaganna og þau geta ekki vísað frá sér ábyrgð á ástandinu hvað það snertir.

Varðandi að öðru leyti þá sem leigt hafa húsnæði og þá sem hafa haft búseturétt er í sjálfu sér rétt að það er hægt að gera tengingu á milli þeirra sem eru þar staðsettir á húsnæðismarkaðnum og þeirra sem tóku verðtryggð lán, en staða þeirra er hins vegar alls ekki með öllu samanburðarhæf. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa alla tíð verið hugsaðar og eru miðaðar við þá sem ekki hefðu notið nægilegra úrræða eftir síðasta kjörtímabil og skulduðu verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 þegar mesta verðbólgan geisaði. Ef við skoðum þetta síðan í samhengi við þær aðgerðir sem gripið var til eftir að kosið var árið 2009 kannast ég ekki við að fyrri ríkisstjórn hafi verið með nein viðlíka úrræði og boðin voru í 110%-leiðinni eða með sérstöku vaxtabótunum eða með öðrum þeim úrræðum sem kynnt voru til sögunnar fyrir þá sem voru á leigumarkaði eða áttu búseturétt.

Hins vegar er ekki langt síðan gefin var út skýrsla um húsnæðismál í landinu sem er til frekari úrvinnslu í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. Sú vinna stendur yfir og við væntum þess að núna á haustmánuðum fæðist tillögur um það hvernig við getum betur komið til móts við þarfir sem eru á þessu sviði húsnæðismarkaðarins.