144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skuldaniðurfærsla fyrir leigjendur og búseturéttarhafa.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt og það er ástæðan fyrir því að slíkar hækkanir er ekki að finna í fjárlagafrumvarpinu eins og það var hér lagt fram og kynnt. Málin eru til skoðunar, þessi málaflokkur og þeir bótaflokkar og þau stuðningskerfi sem við búum við og hvernig þau spila saman. Það verður að segjast alveg eins og er að það er býsna flókið samspil þegar allt er tekið með sem mikill fengur væri að því að einfalda.

Hins vegar get ég ekki samsinnt hv. þingmanni með hlut sveitarfélaganna í þessum efnum vegna þess að jafnvel þótt það valdi sveitarfélögunum einhverjum vandræðum við uppbyggingu á félagslega húsnæðinu er sá málaflokkur engu að síður á þeirra ábyrgð. Þetta er ekki einstreymispípa sem liggur frá ríkinu til sveitarfélaganna til að standa undir velferðinni í landinu. Við deilum með okkur byrðunum af því. Til þess hafa sveitarfélögin sína tekjustofna og ríkið hefur sína.