144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að taka þátt í sérstakri umræðu um málefni Sjálfstæðisflokksins. Hér get ég vel staðið sem formaður Sjálfstæðisflokksins og veitt hv. þingmanni svör við þeim álitaefnum sem hann telur að hafi komið upp innan Sjálfstæðisflokksins. Ég kannast ekki við að hér hafi nokkurt einasta atriði verið nefnt sem tengist stöðu minni sem fjármála- og efnahagsráðherra.

Það er víða komið við. Það er nefnt að tryggja þurfi stjórnfestu. Í núverandi ríkisstjórn sitja níu ráðherrar, það er sama fólkið og tók við fyrir rétt rúmu ári síðan. Eina breytingin sem hefur orðið er sú að með forsetaúrskurði frá 26. ágúst tók hæstv. forsætisráðherra við sex málaflokkum og gegnir nú embætti dómsmálaráðherra. Ráðuneytinu hefur ekki verið skipt upp. Þessi tilhögun er í fullkomnu samræmi við ákvæði stjórnarskrár og lög um Stjórnarráð Íslands. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé mér sammála um það að forsætisráðherra og forseti Íslands hafi við útgáfu forsetaúrskurðar nr. 90/2014 verið fullkomlega innan þess ramma sem stjórnarskrá Íslands og lög um Stjórnarráð Íslands setja.

Til að gæta að samhengi hlutanna er ekki úr vegi að líta aðeins á hvernig stjórnvörslu var viðhaldið hér í síðustu ríkisstjórn á árunum 2009–2013. Í þeirri ríkisstjórn sat einmitt málshefjandi, hv. þm. Árni Páll Árnason. Í ríkisstjórninni sem tók við árið 2009 og sat þar til ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum sátu 15 ráðherrar. Af þessum 15 sátu einungis tveir allan tímann í sama ráðuneyti undir sama heiti, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Þrír voru fjármálaráðherrar, þrír gegndu embætti ráðherra í heilbrigðisráðuneytinu og svo varð það velferðarráðuneyti síðar með samruna við félagsmálaráðuneytið, tveir voru dómsmálaráðherrar en það ráðuneyti rann síðan saman við önnur ráðuneyti í innanríkisráðuneyti, tveir voru efnahags- og viðskiptaráðherrar o.s.frv. Menn þekkja þessa sögu, endalausar hræringar og allt annað en það sem gæti fallið undir heitið stjórnfesta í Stjórnarráðinu.

Þess má geta að hv. málshefjandi gegndi tveimur ráðherraembættum í ríkisstjórninni, fyrst sem félagsmálaráðherra og svo sem efnahags- og viðskiptaráðherra en var síðan utan ríkisstjórnar frá áramótum 2011/2012. Það væri svo sem efni í sérstaka umræðu í þinginu ef við viljum fara að taka sérstaka umræðu um það sem er að gerast bak við tjöldin innan flokkanna o.s.frv. Hver var aðdragandi þess að hæstv. ráðherra þess tíma var beðinn um að víkja úr ríkisstjórninni? Var það til að lúta agavaldi formannsins til að tryggja framgang einstaka mála sem ríkisstjórnin hafði sett á oddinn? Hvað var á seyði? Hvers vegna hætti Jón Bjarnason í ráðuneytinu? Við höfum reyndar lesið um það í hans eigin skrifum.

Þetta eru dæmi um mál sem hv. þingmaður vill taka til umræðu í þinginu og lúta að því hvernig formenn í stjórnmálaflokkum eiga að beita agavaldi sínu yfir ráðherrum í einstöku ráðuneytum. Það sem hv. þingmaður vék að og er rétt er það að málið sjálft er til skoðunar. Það er hjá umboðsmanni, ekki satt? Hæstv. ráðherra hefur nýlega veitt svör við þeim spurningum sem að henni hafa beinst. Hv. þingmaður vill bíða eftir svörunum og ég ætla líka að gera það. Það er sagt að ég hafi gagnrýnt umboðsmann. Ég hef ekki gagnrýnt umboðsmann fyrir neitt efnislegt í þessu máli. Ég áskil mér hins vegar allan rétt til að hafa skoðun á því hvernig formlega er staðið að hlutum í stjórnsýslunni hjá okkur og þar á meðal hjá umboðsmanni Alþingis og stend við það sem ég sagði í því sambandi. Mér þótti athyglisvert svo ekki sé meira sagt að sá sem mesta ábyrgð ber á því fyrir þingið að tryggja að málsmeðferðarreglur séu virtar, að andmælaréttar sé gætt, að meðalhófs sé gætt o.s.frv., skyldi velja þá leið án sýnilegrar ástæðu að hefja umræðu um málið með því að senda það til fjölmiðla áður en báðar hliðar þess höfðu komið fram og þeim sem spurður hefur verið hefur ekki gefist færi á að svara.

Hv. þingmaður getur haft sínar skoðanir á því hvenær ráðherrar eigi að víkja til að axla pólitíska ábyrgð. Hann verður bara að geyma þær fyrir sig. Honum er frjálst að tala um þær eins og honum sýnist. Ég er hins vegar sjálfur þeirrar skoðunar að þetta sé tæplega vettvangurinn til að ræða um það við formenn í stjórnmálaflokkum hvort þeir hafi gengið nægilega eftir því við eigin flokksmenn að þeir axli pólitíska ábyrgð. Svo vitum við öll (Forseti hringir.) sem erum hér saman komin að þingið hefur sín eigin úrræði sem menn heykjast á (Forseti hringir.) að beita.