144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það hefur þegar komið fram hjá hæstv. innanríkisráðherra hvers vegna hann baðst lausnar frá skyldum dómsmálaráðherra. Ástæðan er í einu orði lekamálið. Nú gæti ég haldið langa ræðu um að þau viðbrögð ráðherrans hefðu verið of lítil, of seint en sú ræða þyrfti að vera mun lengri en þær tvær mínútur sem hverjum þingmanni er úthlutað í þessari umræðu og jafnvel þótt hann talaði tvisvar. Því er ekki hægt að ræða þetta mál efnislega nógu ítarlega fyrr en til kasta kemur þingmál sem heimilar lengri ræðutíma. Slíkt þingmál verður lagt fram nema hæstv. innanríkisráðherra hafi vikið að fyrra bragði þegar að því kemur.

Ein ástæðan fyrir því að vantrauststillaga hefur ekki þegar verið lögð fram er sú að píratar vilja allra síst þvælast fyrir vinnu umboðsmanns Alþingis meðan hann hefur málið til athugunar en við höfum leitað til sérfræðinga til að fá úr því skorið með vissu hvort við getum lagt fram vantrauststillögu án þess að stíga á tær umboðsmanns Alþingis.

Um ráðuneytið sjálft og uppskiptingu þess má segja að það hlýtur að teljast subbulegt að brjóta upp innanríkisráðuneytið í þeim eina tilgangi að reyna að bjarga pólitísku lífi eins tiltekins ráðherra. Þvílík pólitísk meðvirkni er til skammar. Eina markmið þeirrar aðgerðar virðist vera að halda þessum tiltekna einstaklingi, hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, í ráðherrastól. Mér er fyrirmunað að ímynda mér hvaða heilvita manni þætti það málefnaleg ástæða. Hinn möguleikinn er sá að allt aðrar ástæður séu þar að baki og það hafi í raun verið löngu ákveðið. En þá er ekki hægt að láta eins og þetta séu viðbrögð við lekamálinu og liggur það því óafgreitt. Hvorugur kosturinn er ásættanlegur.

Meint ábyrgð flokksformanns á ráðherranum í sínum flokki er hér einnig til umræðu, en nú er tíma mínum lokið og ég mun víkja að því efni í seinni ræðu minni.