144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er texti sem ástæða virðist til að rifja upp, t.d. í ljósi síðustu ræðu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í grunninn byggist íslensk stjórnsýsla á „miðstýringu þar sem ráðherrann hefur alla þræði í hendi sér“. Ráðherrar njóta mikils sjálfstæðis án þess að búa við ríkar kröfur um pólitíska og siðferðilega ábyrgð. Þetta er slæm blanda og í raun ávísun á óábyrga meðferð valds. Hérlendis hafa ekki tíðkast svokallaðar „heiðursmannaafsagnir þar sem ráðherrar hafa tekið afleiðingunum af því að stjórnsýsla á þeirra vegum hefur brugðist á einn eða annan hátt með því að segja af sér“. Í stað heiðursmannareglunnar hafa íslenskir stjórnmálamenn fremur vísað í sakamannaregluna sem kveður á um að þeim eigi að vera sætt uns sekt er sönnuð: „[S]tjórnmálamenn [...] afsaka oftast ávirðingar sínar með því að reglur skorti eða [...] að enginn teljist sekur fyrr en sök sannast og vafi komi sökunauti í hag. Hér samsama þeir sig sakamanninum og einblína á lagabókstafinn. Þeir gefa því engan gaum að í stjórnmálum á önnur regla að gilda, sú að vafi sé túlkaður gegn stjórnmálamanninum, því að nálægðin ein við spillingu veldur trúnaðarbresti, en fullur trúnaður er undirstaða fulltrúalýðræðis.““

Herra forseti. Höfundar þessa texta sem orða svo vel og í hnotskurn það sem hér á við, kjarnann í því, verða ekki sakaðir um að hafa sett þessi orð á blað með hliðsjón af lekamálinu því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út í apríl 2010. (VigH: Er það Jóhanna …?)