144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ein af áherslum hv. málshefjanda þessarar umræðu er ábyrgð formanns flokks á að tryggja að ráðherrar axli pólitíska ábyrgð.

Þarna finnst mér skjóta skökku við. Formaður flokks gegnir ekki því hlutverki að tryggja að aðrir ráðherrar axli ábyrgð. Um þetta má vitna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og gagnrýni hennar á svokallað oddvitaræði. Það er forsætisráðherra, ekki flokksformenn, sem ber ábyrgð á ráðherrum í sinni ríkisstjórn að því marki sem þeir rísa ekki undir henni sjálfir.

Um þetta segir einnig í fræðiritinu Þingræði á Íslandi, með leyfi forseta:

„Gæta verður að því í umfjöllun um ráðherra að embætti þeirra eru að því leyti sérstök að ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnsýslunni en eru háðir meiri hluta þingsins og forsætisráðherra um stöðu sína.“

Ergó, ráðherra er háður forsætisráðherra um stöðu sína en ekki formanni flokks síns.

Ég dreg tvær ályktanir af þessu. Annars vegar styrkir þetta áhyggjur mínar sem ég hef ítrekað hér við önnur tilefni en það er að við virðumst ekki öll hafa lært nógu mikið af hruninu. Hitt er að enn og aftur lítur út fyrir að hæstv. fjármálaráðherra sé ívið líklegri til að afgreiða mál sem með réttu tilheyra hæstv. forsætisráðherra.

Hvað varðar það að þessu ráðuneyti hafi verið skipt upp getur það ekki verið mikilvægara að einn tiltekinn einstaklingur sé innanríkisráðherra en að það sé traust til stjórnsýslunnar. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur þetta traust dvínað mjög mikið síðasta tæpa árið eða svo. Og það er ábyrgðarhlutverk hæstvirtra ráðherra og okkar hv. þingmanna að tryggja að almenningur og Alþingi geti treyst stjórnsýslunni. Á meðan svo er ekki af einni eða annarri ástæðu erum við að bregðast skyldum okkar.