144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:27]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Þann 18. júní sl. hélt innanríkisráðherra málstofu um fjarskiptamál í samvinnu við fjarskiptasjóð. Þar kom fram að menn höfðu áhyggjur af fjarskiptamálum á Vestfjörðum þar sem vantaði hringtengingu.

Í skýrslu fjarskiptasjóðs kom fram að þrjú þéttbýlissvæði á landinu uppfylltu ekki kröfur um hringtengingu og þar voru Vestfirðir efstir á áhættulistanum á undan Snæfellsnesi, Eskifirði og Norðfirði. Í sömu skýrslu kom fram að af 98 byggðakjörnum eru 61 tví- eða margtengdur, 29 eintengdir og 8 ekki tengdir, að ógleymdum þeim sem búa í strjálbýli en þeir eru um 16.700, eða 5,3% landsmanna. Fjarskiptasjóður lagði fram úttekt á stöðu fjarskiptamála á landinu og grófa kostnaðaráætlun um bæði hringtengingar þar sem það á við og tengingar til allra heimila í landinu með þeim skilyrðum að notast við þau kerfi sem fyrir eru.

Á þessari málstofu var mikill samhljómur hjá fjarskiptafélögunum að ákveðin stöðnun væri í fjarskiptamálum á Íslandi. Félögin eru ekki á leiðinni að fjárfesta í innviðum fjarskipta í dreifbýli á meðan mikil offjárfesting hefur orðið í innviðunum á höfuðborgarsvæðinu og er þá verið að tala um milljarða. Á meðan hafa fjársterk sveitarfélög á landsbyggðinni brugðið á það ráð að leggja ljósleiðara á eigin kostnað.

Samþætting á innviðum fjarskipta á landsvísu er löngu tímabær. Starfshópur um endurskoðun á alþjónustukvöðum í fjarskiptamálum, sem skipaður var sl. vetur, mun skila tillögum í næsta mánuði.

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Þessi uppákoma á Vestfjörðum hefur vafalaust ýtt við mönnum því að nú stendur yfir fundur hagsmunaaðila fjarskiptamála á Vestfjörðum þar sem þeir ræða hugsanlegt samstarf um uppbyggingu fjarskiptainnviða á Vestfjörðum og fylgjast stjórnvöld vel með því (Forseti hringir.) og eftir orðum innanríkisráðherra er fullur vilji að taka þátt í því verkefni.