144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:35]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það ástand sem skapaðist á Vestfjörðum hefur í sjálfu sér lengi verið ljóst að gæti komið upp og á það hefur lengi verið bent að ekki hefur gengið enn þá að hringtengja svæðið þannig að rof á sambandi gæti skapað það rof á sambandinu sem raunin varð. Mínar upplýsingar aftur á móti segja að í meginatriðum hafi neyðarfjarskiptin verið tryggð með örbylgjusambandi við Djúpið sem Neyðarlínan hafði forustu um að byggja upp.

Annar hluti þessarar umræðu er um uppbyggingu á háhraðatengingum í dreifbýli á Íslandi. Má nefna að með uppbyggingu á nýju dreifikerfi sem byggir á 4G-tækninni mun á næstu mánuðum verða mjög öflug tenging sem nær til 99,5% landsmanna fyrir árslok 2016. En sú tenging er ekki sú framtíðarlausn sem við viljum telja að sé viðunandi til lengri tíma og því er nauðsynlegt að herða á uppbyggingu á ljósleiðaratengingum í dreifbýli. Í sjálfu sér er ljósnetstæknin í mínum huga sú tækni sem mun duga fyrst um sinn á þéttbýlisstöðum en þá þarf líka að ljósleiðaratengja þau þéttbýli til þess að slík tækni gangi upp. Til að styðja frekari sókn á þeim vettvangi verður að horfa til fleiri þátta. Nátengdur þáttur í orkudreifingu og afhendingaröryggi er raforku eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tæpti hér á.

Nákvæmlega á þessari stundu þegar umræðan hér fer fram er á öðrum stað í bænum að fæðast tilraun til þess að taka með nýjum hætti á framförum í fjarskiptakerfum á forsendum öryggis þeirra og á forsendum samkeppni og gæða. Hugmyndafræði þeirrar tilraunar er að láta reyna á að skapa skynsamlega nýtingu þeirra fjárfestinga sem þegar eru til staðar til þess að styðja við framfarir. Á það sérstaklega við um Vestfirði sem við megum þá vænta tíðinda af. En ég vil undirstrika að allar slíkar þreifingar verða að vera á þeim forsendum að samkeppni í fjarskiptaþjónustu eflist, sem undirstrikar að íbúar næstum hvar sem þeir búa geti valið sér þjónustuaðila og fjarskiptafyrirtæki sem hafi möguleika á að markaðssetja sína þjónustu gagnvart öllum neytendum.