144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:41]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hérna er til umræðu staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli en á mínum heimaslóðum er ekki hægt að tala um öryggi í sömu setningu og fjarskipti eru nefnd. Það er ákveðinn vandi í því fólginn að tala um öryggi þegar símsamband dettur inn og út eftir hag og viðgerðargleði fyrirtækja. Er þrýstingur á þjónustufyrirtæki nægur? Er hlutverk þeirra skýrt?

Ég hef eytt ófáum mínútum í bið hjá þjónustusíma símfyrirtækja. Þegar maður kvartar eru viðgerðarmenn ýmist lagðir af stað eða koma eftir helgi og á tímabili þorði maður varla að hringja í fyrirtækin ef eitthvað bjátaði á því að fæstir af viðgerðarmönnunum höfðu skilað sér og ekki vildi ég vera fyrst til að færa þeim þær fréttir að viðgerðarmenn þeirra væru væntanlega týndir einhvers staðar á milli Ísafjarðardjúps og Reykjavíkur því að það er frekar stórt svæði.

Við getum sett endalaust af lögum og reglum, en gera þær gagn í þessum málaflokki? Það er nefnilega fáránlegt að ár eftir ár og fund eftir fund þurfi að ræða sama málefnið, bætt öryggi fjarskipta og uppbyggingu háhraðatengingar í dreifbýli.

Eins og hæstv. innanríkisráðherra kom inn á eru þessir þættir ekki bara öryggistæki á svæðum þar sem snjóar þyngst á veturna, þar sem snjóflóð og aurskriður falla og þar sem langt er á milli byggða í dreifbýli heldur eru þessir þættir einnig verkfæri til að gera byggðarlög samkeppnishæf hvað varðar fyrirtækjarekstur og atvinnutækifæri.

Vegna skorts á hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum voru á tímabili umræður milli fyrirtækja í smærri byggðarlögum um að skipta á milli sín netnotkun á daginn og yfir nóttina til þess að létta álagi af kerfinu. Í eystri byggðarlögum er enn verið að setja upp úreltan búnað sem gerir íbúum ekki mögulegt að nýta allar þær tækninýjungar og breytingar sem völ er á.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu hér í dag og vona svo innilega að allir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn vinni saman að því að bæta úr málum svo að við þurfum ekki að halda enn einn fundinn um sama málið því þó svo að Vestfirðir séu mikið til umræðu hér í dag þá snertir þetta byggðirnar alls staðar í kringum landið.