144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og kom fram á World Economic Forum í fyrra þá var tekið alveg skýrt fram að internetið væri grundvöllur fyrir hagvöxt og nýsköpun í framtíðinni. McKinsey og Boston Consulting Group hafa gert úttektir á gæðum sem internetið skapar fyrir samfélög og það er alveg ljóst að 20% af hagvexti síðastliðinna ára er til kominn vegna internetsins. Af því hefur 75% verðmætasköpunar orðið til í hefðbundnum iðnaði.

Það er líka alveg ljóst að ungt fólk á landsbyggðinni horfir til þess að geta skapað sér atvinnutækifæri á internetinu, atvinnutækifæri sem það getur ekki hugsað sér að sinna í heimabyggð sinni ef það á á hættu að internetið liggi niðri. Þá fer fólk eitthvert annað. Þetta er svo frábært tækifæri ef internetið er öruggt í heimabyggðinni því að þá getur unga fólkið, sem kann að skapa sér tækifæri og er í síauknum mæli að skapa sér tækifæri, miklu frekar hugsað sér að búa í sinni heimabyggð hafi það skapað sér atvinnutækifæri tengt internetinu.

Tvö af þremur forgangsmálum okkar pírata, sem allir þingflokkar fá, varða þetta efni. Þriðja forgangsatriði okkar er þingsályktunartillaga sem Birgitta Jónsdóttir er frumflutningsmaður að, sem fjallar um að Alþingi álykti „að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun um jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu óháð búsetu og fjárhag“. Þetta er aðgerðaáætlun.

Svo er það fyrsta forgangsmál okkar. Það er mál sem ég frumflyt með þingmönnum allra flokka, þremur þingmönnum úr hverjum flokki, byggt á vinnu sem hæstv. Ragnheiður Elín Árnadóttir setti af stað fyrr á árinu, um „að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að móta stefnu (Forseti hringir.) um að skapa á Íslandi vistkerfi eins og best verður á kosið fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt því að verja réttindi netnotenda“. Þetta er það sem við munum vinna að. Án hringtengingar, ljósleiðara (Forseti hringir.) um landið missum við af þessum tækifærum, þá eru Vestfirðir klipptir út og verða af þessum tækifærum.