144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og hæstv. ráðherra segir er grundvöllurinn fyrir þessu frumvarpi sá að fólk hefur sótt um skuldaleiðréttingu. Ástæðan fyrir því að veita þennan frest er sú að sjá hvort fólk getur náð að bjarga sér eftir leiðréttinguna.

Við vitum að það mun þurfa að klára þetta dómsmál efnislega fyrir íslenskum dómstólum. Hvers vegna ekki að taka líka með fólk sem við vitum að dómsmálið skiptir máli? Ef það verður dæmt eins og ESA, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Neytendastofa á Íslandi og mögulega núna EFTA-dómstóllinn kveða á um verður miklu stærri skuldaleiðrétting fyrir lántakendur sem eru með verðtryggð neytendalán frá 2001 fram til breytinga á lögunum. Þeir munu fá miklu stærri leiðréttingu en ríkisstjórnin er að bjóða upp á. Þetta er spurning um það fólk, það getur fengið gríðarleg tækifæri til að bjarga sér þar. Það sem er krafist í málinu er að lánin skuli endurreiknuð út frá því að þessir skilmálar hafi verið óréttmætir. Þetta þýðir gríðarlega skuldaleiðréttingu fyrir fólk sem er með þessi lán.

Ef það verður selt ofan af fólkinu þangað til dómur er kveðinn upp þýðir það að fólkið fær ekki eignina sína aftur. Það er óafturkræft. Það er líklega þess vegna sem hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að fara þessa leið, a.m.k. með þá sem sækja um leiðréttingu, en hvers vegna ekki með þessa aðila? Allir fagaðilarnir sem hafa gefið álit í þessu máli segja að þau séu óréttmæt. Með því að taka þá inn í þetta, (Forseti hringir.) það þarf ekki að vera frestur nema fram á mitt næsta ár, þá gætum við endurskoðað það, en þeir aðilar ættu ekki að missa heimili sín á nauðungarsölum. Við getum gert þetta.