144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

4. mál
[17:06]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Eins og fram hefur komið var þetta mál til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta þingi. Þar voru gerðar nokkrar athugasemdir. Því miður virðast ekki hafa skilað sér í þessu nýja frumvarpi þær lagfæringar sem hefðu komið fyllilega til móts við athugasemdirnar.

Það er tvennt sem helst voru gerðar athugasemdir við. Í fyrsta lagi er það skilgreining á skuldakröfunni, sem felur í sér tvöfalda neitun. Ég get lesið hana fyrir ykkur, þá áttið þið ykkur kannski á því að hún er gríðarlega torskilin og hafði greinilega misskilist að einhverju leyti. En skuldakrafa er í þessu frumvarpi skilgreind þannig, með leyfi forseta, sem „fjárhagsleg krafa sem hefur orðið til á grundvelli samnings þegar lánastofnun veitir fyrirgreiðslu í formi láns. Neytendalán, sbr. lög nr. 33/2013, um neytendalán, að undanskildum fasteignalánum …“. Hérna kemur sem sagt þessi tvöfalda neitun. Afleiðingin af þessu er sú að fasteignalán eru ekki undanskilin, þ.e. helstu eignir bankanna sem eru fasteignalán.

Það er núna heimilt með þessum lögum að veðsetja fasteignalán eins banka, t.d. þegar banki tekur lausafjárlán hjá öðrum banka, væntanlega vegna þess að hann vantar lausafé. Þá getur hann sett að veði sín bestu eignasöfn, fasteignalánin. Það gæti valdið þeim vanda einhvern tímann í fjarlægri framtíð ef við lendum í þeirri sömu stöðu og við lentum í nýlega þegar hér varð bankahrun og ríkið kemur að því að bjarga innstæðuhöfum banka sem fellur, þá er bankinn búinn að veðsetja í burtu bestu eignir sínar og ríkið kemur að tómum kofanum og orðnum hlut. Þetta er því miklu varasamara en gæti virst við fyrstu sýn, en þegar allt er í lagi er þetta vissulega ekki áhyggjuefni. En við verðum að hugsa lengra hér á þingi og velta því fyrir okkur hvað gæti gerst.

Við gerðum athugasemd við þetta. Það er svigrúm í þessari tilskipun frá Evrópusambandinu sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Geta aðildarríki ákveðið að skuldakröfur falli ekki undir gildissvið tilskipunarinnar ef skuldarinn er neytandi …“

Það væri hæglega hægt að nýta sér þetta til að undanskilja fasteignalán af því að þeir sem taka slík lán eru vissulega neytendur.

Einnig er heimilt að undanskilja lánasamninga sem gerðir eru við lítil fyrirtæki, en lítil fyrirtæki eru öll fyrirtæki sem eru með færri en 50 starfsmenn og með veltu undir 10 millj. evra. Það eru 80% af öllum fyrirtækjum á Íslandi.

Það mundi draga mjög úr því hættuspili sem felst í frumvarpinu og þessari heimild, að mínu mati, ef við mundum nýta þann rétt sem við höfum samkvæmt tilskipuninni til þess að draga úr þeim óæskilegu áhrifum sem hún getur haft í fjarlægri framtíð.

Það er annað sem menn ættu að velta fyrir sér. Tilgangur þessarar tilskipunar í Evrópusambandinu gengur akkúrat þvert á þau markmið sem við erum að glíma við að ná á Íslandi. Í Evrópusambandinu er verðhjöðnun. Þar er mjög mikilvægt að auka möguleika banka til þess að búa til peninga. Við erum í þveröfugri stöðu því hér er frekar tilhneiging til verðbólgu. Það er allt of mikið peningamagn í umferð, hundruð milljarða of mikið af peningum í umferð, sem er líka ein af meginorsökum þess að við erum hér með fjármagnshöft.

Þannig að það er vandséð að þessi tilskipun, sem gengur út á að mikilvægt sé að auka möguleika bankanna til þess að búa til aukið fé, þjóni tilgangi okkar hér innan lands til þess að stuðla að fjárhagslegum stöðugleika.

Ég vildi vekja athygli á því að mér þykir hafa skort á það að tekið hafi verið tillit til þessara athugasemda sem vissulega komu fram í meðförum nefndarinnar á síðasta þingi, ég vildi láta vita af því.

Við í nefndinni munum aftur fara yfir þessi mál og kanna hvort ekki sé hægt að sníða þessa vankanta af svo hægt sé að innleiða tilskipunina í þessu frumvarpi með öruggum hætti.