144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Yfirskrift ræðu minnar í dag er: Hlustið á börnin. Fyrr í þessum mánuði var haldin ráðstefna norrænna hjúkrunarfræðinga þar sem einmitt þetta var rauði þráðurinn, hlustið á börnin. Meðal þátttakenda í hringborðsumræðum voru umboðsmenn barna frá öllum Norðurlöndunum þar á meðal Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna á Íslandi.

Þrátt fyrir að hér á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum sé vel búið að flestum börnum er það ekki einhlítt og stórkostleg vandamál þeirra geta verið vel falin eins og dæmin sanna, t.d. þegar börn eru beitt kynferðisofbeldi á heimilinu.

Ísland hefur nýverið innleitt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur því ríkum skyldum að gegna í þessum efnum. Samkvæmt 19. gr. barnasáttmálans eru löndin sem að honum standa skyldug til þess að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda barn gegn hvers konar líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, o.s.frv.

Fram kom á fyrrnefndri ráðstefnu að hjúkrunarfræðingar sem vinna með börn í skólaheilsugæslunni og í öðrum heilbrigðisstofnunum hitta þar reglulega fyrir börn sem hafa beint eða óbeint glímt við vandamál sem tengjast ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir. Þetta á líka við um Ísland. Það fólk þarf því að hafa þekkingu á birtingarmyndum ofbeldis gegn börnum og afleiðingum þess til að skilja orsakir erfiðleika barnanna og kunna að hlusta og spyrja réttu spurninganna til að fá fram vitneskju um ofbeldi eða vanrækslu.

Barnasáttmálinn fagnar 25 ára afmæli 20. nóvember næstkomandi og er það mín von og ósk að íslensk stjórnvöld haldi upp á þennan dag með myndarlegum hætti með því að beina sjónum sem flestra hér á landi að réttindum barna, ekki síst barnanna sjálfra.