144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fjárhagsstaða Landhelgisgæslunnar er á hættumörkum. Þetta sagði fjármálaráðherra þegar hann var gestur í Vikulokunum hjá Helga Seljan á RÚV síðastliðinn laugardag og að það væri áhyggjuefni hve fáa daga skip Gæslunnar gætu verið á sjó.

Ég tek heils hugar undir þessar áhyggjur. Landhelgisgæslan er með viðvarandi aðhaldskröfu á sínum rekstri og það hlýtur að vera á ábyrgð fjármálaráðherra að tryggja Gæslunni fjármagn til reksturs því að 95 millj. kr. aðhaldskrafa er ekki neitt náttúrulögmál. Við höfum þurft að leigja frá okkur skip og þyrlur sökum fjárskorts eftir hrunið en nú ætti að vera komið borð fyrir báru til að auka fjárveitingar til þessa mikilvæga málaflokks.

Þegar flutningaskipið Akrafell strandaði við Reyðarfjörð fyrr í þessum mánuði var ekki hægt að senda fullkomnasta varðskipið okkar, Þór, á strandstað sökum fjárskorts, ekki strax. Aðeins ein áhöfn er í vinnu í einu og hún var fyrir norðan land á Ægi svo að kalla þurfti menn úr fríum til að manna Þór. Ég spyr: Er þetta ásættanlegt? Hver á viðbragðstíminn að vera? Akrafellið var fullhlaðið varningi og hætta gat verið á alvarlegu mengunarslysi en Þór er vel búinn tækjum og fullkomnasta skipið með búnað til að dæla olíu úr sjó.

Þessar umfangsmiklu aðgerðir Landhelgisgæslunnar tókust sem betur fer vel en sýna okkur fram á nauðsyn þess að fullkomnasta skipið sé ávallt til taks þegar þörf er á. Fyrr á árum voru tvö til þrjú varðskip til taks en nú er aðeins ein áhöfn í vinnu í einu. Fjármálaráðherra sagði að það væri áhyggjuefni að erfitt gæti reynst að manna Þór þegar alvarleg atvik koma upp og ég tek undir það. En mér fannst mjög undarlegt að heyra, og skjóta skökku við, í fréttum RÚV í gær að forsætisráðherra léti Landhelgisgæsluna, eftir útsýnisflug yfir gosstöðvarnar, skutla sér fyrst á sveitahótel og í mat og síðan í (Forseti hringir.) starfsmannaferð á vegum ráðuneytisins úti í Vestmannaeyjum. Mér finnst það ekki við hæfi þegar (Forseti hringir.) Landhelgisgæslan getur ekki sinnt hlutverki sínu sökum fjárskorts.