144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Rétt fyrir klukkan ellefu í morgun birtist frétt sem fékk mig virkilega til þess að berja í borðið. Þar var tilkynnt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að hafna nýrri tillögu að veglínu um Teigsskóg í Þorskafirði, svokallaðri ÞH-leið sem Vegagerðin hafði lagt til og átti að fara um norðanverðan Þorskafjörð og fylgja nokkuð eftir veglínu sem Skipulagsstofnun hafði áður hafnað, þ.e. B-leiðinni margnefndu. Því finnst Skipulagsstofnun að ekki hafi verið farið eftir þeim ákvæðum sem lögð voru fram og viðbrögðum sem kallað var eftir þegar B-leið var hafnað. Því má segja að Skipulagsstofnun kalli ÞH-leiðina B-leið í dulbúningi þrátt fyrir að með nýrri ÞH-leið hefði orðið enn minni skerðing á Teigsskógi en var áætlað með fyrri tillögu, þ.e. B-leið. Þegar Vegagerðin benti á þá breytingu svaraði Skipulagsstofnun því til að það þyrfti enn frekari breytingar til endurupptöku umhverfismatsins.

Verði endurupptaka málsins tekin fyrir má reikna með að málinu seinki um þrjá til fimm mánuði. Fólkið sem býr þarna getur ekki beðið enn eitt árið í óvissu um framtíðina, óvissu um búsetu og atvinnumöguleika og óvissu um öryggi því að nú þegar er fólk farið að fá hnút í magann fyrir komandi vetri. Í stað þess að gera eitthvað í málinu á að halda enn einn fundinn þar sem Vegagerðin og sveitarstjórn Reykhólahrepps ásamt Skipulagsstofnun ætla að ræða mögulegar málsmeðferðir. Stór og fín orð skreytt með glitrandi bleikum borða.

Ég hef vitað hug hæstv. innanríkisráðherra í þessu máli enda sjálf setið ófáa fundi um þetta málefni. Nú held ég að tími sé kominn til að hæstv. innanríkisráðherra bíði ekki eftir fleiri fundum heldur taki til aðgerða svo að hægt sé að ráðast í framkvæmdir og koma byggðarlögum vestra í tengingu við aðra landshluta og fara leiðir sem eru mönnum bjóðandi.