144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að taka upp mjög brýnt mál hér á Alþingi. Ég tel það mjög jákvætt.

Í fyrsta lagi er það sem kom fram í viðtalinu náttúrlega með öllum fyrirvörum vegna þess, eins og ég gat um í viðtalinu sjálfu, að ekki hafa legið fyrir gögn nema þau sem eru orðin sjö ára gömul en mikið hefur breyst síðan. Þegar ég nefndi að beiðni hvaða hámark gæti orðið á þessu þá sagði ég 120 þús. kr. Það er án þess að hafa þessi gögn. Það má vel vera að talan verði lægri. Það getur líka verið að hún verði eitthvað hærri. Til að gefa einhverja mynd af því hvað við erum tala um hafa borist fréttir af því að sumt fólk, langveikir sérstaklega, borgi óhemju mikið. Það var vitað fyrir og hefur legið fyrir allan tímann frá því fyrri nefnd starfaði 2007–2008 að sumir sjúklingar borga mjög mikið. Það finnst mér vera óviðunandi þannig að ég hef lagt mikla áherslu á að nefndin klári sem fyrst.

Það sem kom fram í viðtalinu eru að sjálfsögðu mínar hugleiðingar þar sem nefndin hefur ekki komist að niðurstöðu.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um hjálpartæki þá eru uppi tvenns konar hugmyndir, annars vegar að þau séu bara veitt óháð öðru og hins vegar að þau falli undir greiðsluþátttökukerfið. Nokkuð sem við eigum eftir að ræða og ákveða er hvað eigi að falla undir kerfið og hvað ekki.

Ég fékk upplýsingar um það í morgun að gögnin eru komin í hús í ráðuneytinu. Það er verið að kanna áreiðanleika þeirra. Það tekur kannski viku eða tvær. Eftir það mun ég boða fund í nefndinni því að hún bað eðlilega um þessi gögn og bíður eftir þeim. Eftir það getum við tekið til starfa.